Önnur umferð Íslandsmótsins í Motocross fór fram sl. laugardag í sól og blíðu á Ólafsvík. Nýtt þátttökumet var slegið í þessari keppni, en 44 keppendur voru skráðir til leiks, 22 í hvorum flokki. Í fyrsta riðli í A flokki átti Ragnar Ingi mjög gott start, en helsti keppinautur hans, Viggó Viggósson kom fast á hæla hans og stutt á eftir þeim kom Reynir. Einnig voru Helgi Valur og Haukur framarlega. Baráttan var þó aðallega á milli Ragnars, Viggós og Reynis og voru þeir í nokkrum sérflokki í þessum riðli. Viggó barðist hetjulega en náði aldrei að ógna Ragnari neitt að ráði og sigraði hann því nokkuð örugglega í riðlinum með Viggó og Reyni í öðru og þriðja sæti. Í öðrum riðli tók Reynir forystuna fljótlega og hélt henni fram í miðjan riðilinn, en þá náði Ragnar fram úr honum eftir mikla baráttu. Þeir tveir börðust eins og ljón það sem eftir var af riðlinum. Ragnar hafði betur í þeirri baráttu með Reyni á hælunum, Viggó kom svo í mark í þriðja sæti. Í síðasta riðli áttu flestir toppökumennirnir frekar lélega ræsingu og Bjarni Bærings tók forystuna í byrjun. Hann hélt henni þó ekki lengi, því Ragnar og Reynir voru komnir fram úr honum mjög fljótlega. Þeir skiptust á að leiða riðilinn og virtust eiga nóg eftir þrátt fyrir að keppnin væri svona lang komin. Ragnar hafði betur í þessari baráttu, en stöðva þurfti riðilinn áður en tilætlaður keppnistími var liðinn vegna slyss í brautinni. Aldrei er að vita hvernig hefði farið ef riðillinn hefði náð tilætluðum tíma því Reynir virtist eiga mikið inni og var að veita Ragnari harða keppni. Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Viggó virtist alveg heillum horfin eftir lélega ræsingu og virtist vera nokkuð sáttur með þriðja sætið í þessum riðli. Ragnar sigraði því í öllum riðlunum og tók forystuna í Íslandsmótinu í Motocross, Viggó er annar og Reynir þriðji.
Einnig voru eknir tveir riðlar í B flokki og var baráttan síst minni þar, en í A flokknum. Sölvi Árnason lék sama leik og Ragnar gerði í A flokk og sigraði í báðum umferðunum með jöfnum og öruggum akstri. Hafsteinn Þorvaldsson og Magnús Ragnar Magnússon voru jafnir með 30 stig. En þar sem árangur í seinni umferð gildir ef menn eru jafnir á stigum þá náði Hafsteinn öðru sætinu af Magnúsi með því að sigra hann í seinni umferðinni.
Valdi Pastrana og Siggi Bjarni voru þeir sem fengu far með sjúkrabílnum. Meiðsli þeirra voru ekki alvarleg, Valdi rifbeinsbrotnaði og rotaðist og Siggi Bjarni tognaði á hásin og er með bólgin úlnlið.
Næsta umferð í Motocross verður haldin á Akureyri 28. júlí.