Hálendisæfing hjá enduro.is

höfundur: Haraldur og Kjartan

Helgina 15.-16.sept var hálendisæfing hjá enduro.is. Sex hjólahetjur tóku þátt í æfingunni.

· Guðmundur Bjarnason Husaberg 501
· Haraldur Ólafsson KTM 520
· Hjörtur L. Jónsson Husqvarna 410
· Kjartan Kjartansson Gas Gas 300
· Okto Einarsson KTM 520
· Sveinn Markússon Husaberg 501

Hér sjá glöggir menn eflaust að tvær míní hetjur vantaði. Heimir og Brutus Maxus voru fjarverandi og Torfi og póleraði Bergurinn einnig. Vitað var að hjólin höfðu mikinn áhuga á að leggja í ferðina, eigendurnir báru fyrir sig einhverjar afsakanir sem sönnum hetjum sæmir ekki. Guðjón hafði betri afsökun, Husabergurinn hans lá í þúsund pörtum á einhverju borði uppi í Vélhjólum og sleðum. Árni Ísberg, pyttstjóri liðins bara fyrir sig hina undarlegustu afsökun, hann sagðist vera að fara í réttir, eins og hann hefði ekki þurft að umgangast nóg af sauðum í þessar ferð, ýmist tví- eða fjórfættum. Páll brekkan var vant við látinn, hann þurfti að stumra yfir kærustunni í orðsins fyllstu merkingu.

Laugardagurinn 15. sepember

Kjartan Kjartansson stjórnaði æfingunni í þetta sinn og hittust hetjurnar sex um hádegisbil á laugardegi. við Hólaskjól í Lambaskarðshólum, Veður var mjög gott, norðanátt, bjart veður og skyggni eins og það gerist best. Kjartan leiddi hópinn frá Hólaskjóli um sérvaldar krókaleiðir um Skælinga og inn að Langasjó. Þá var haldið norður með Langasjó um Tungnaárfjöll og Breiðbak inn í Botnaver. Ekki er neitt að frétt af þeirri leið annað en að mótvindur var með mesta móti og olíubrennarinn, með heldur mörg aukakíló meðferðis, kvartaði mikið, endaði með því að hann henti eigandanum af baki við eitt stoppið. Austast á Breiðbak var stoppað og horft yfir til Jökulheima, eftir örstutta náttúruskoðun var haldið áfram, ekið um Jökulfitjarnar inn að jökulröndinni. Einhver andi kom yfir þá Holsteinbræður, Svein og Berg, á þessari leið og fór þeir á afturdekki, þess síðar nefnda, yfir allar sprænur jafnt sem ár sem þeir sáu. Við jökulinn stoppuðum við, en þegar Haraldur sá ísinn þurfti að halda aftur af honum, á jökulinn vildi hann. Ætli þetta tengist eitthvað nafninu? Eftir stuttan fund og væl í Kjartani var ákveðið að láta það vera.
Þarna fékk Hjörtur loksins tækifæri til að troða sér í pípu, en menn eru efins um að hann hafi áður komist svona langt án þess að fá sér einn smók, enda saug hann pípuna af áferkju og ítalska viðhaldið varð að láta sér lynda annað sætið í forgangsröðinni.
Eftir stutt stopp (taka má fram að öll stopp í þessari ferð voru stutt, enda tilgangurinn með æfingunni að keyra en ekki kjafta) var brunað til baka, eftir Jökulfitjunum og óku menn greitt nema Sveinn sem ók mjög greitt, hann endurtók leikinn, alltaf á afturdekkinu, það var eins og skilyrðin þarna væru sérhönnuð fyrir þá bræður. Skilyrðin voru ekki eins vel hönnuð fyrir Októ sem fór á bólakaf í sandbleytu og náðist hjólið ekki upp fyrr en Guðmundur var búinn að reikna út hvernig best væri að standa að björgun KTM 520 úr þessum erfiðu aðstæðum. Reynt var á hjólinn þegar ekið var til baka um Breiðbak, Tungnaárfjöll, að Langasjó og í átt að Sveinstindi, reyndar er einhver vafa með hvort Líklegur og Guðmundur hafi fundið tvo efstu gírana.. Þessi leið býður upp á all greiðan akstur og sýndi Sveinn yfirþyrmandi takta. Kjartan ók Gassinu eins og það komst en Svein beinlínis flaug fram úr honum á öðru hundraðinu, ók beint á hraðahindrun í veginum og tókst á loft, lenti á næstu hraðahindun og þar skildu leiðir með sæti Bergsins og rassi Sveins, hann framkvæmdi hið fullkoma Flying W, og varð Kjartan vitni að þessu í mikilli nálægð. Í minningunni minnti þetta hann helst á tilburði Lopa þegar hann ók yfir smá skurð á Suzuki AC 50 í Heiðmörkinni, fyrir margt löngu. Merkilegast er að Sveinn skildi bjarga þessu, því frá sjónarhóli Kjartans þá leit helst út fyrir að fæturnir myndu snert nasir skaparans. Við seinni lendinguna flugu gular flygsur um allt og nokkuð ljóst að eitthvað var Bergurinn ósáttur við aksturinn. Í næsta stoppi sagði Sveinn að þetta hafi verið fyrirfram ákveðið atriði og hann haft fulla stjórn á öllu saman og Macrath hefði verið fyrirmyndin, eina sem klikkaði var að hann rak hnéið í þegar hann lenti og þess vegna brotnaði brettið.
Eftir þetta var áfram en hægar ekið í átt að Sveinstindi og hluti hópsins fór að skoða kláfinn yfir Skaftá, neðan við Sveinstind.
Frá Sveinstindi var ekið um Hvanngil, þar er a.m.k. 1000 sinnum farið yfir einn læk og eina á. Ekið í og með fram Blautalóni og inn á Skælinga og eftir þeim að Hólaskjól. Kjartan, Halli og Októ óku þessa leið á met tíma að talið er, Sveinn skilaði sér nokkuð seinna og síðan Hjörtur á ítalska viðhaldinu sínu og Guðmundur sem var að álagsprófa öxlina á sér eftir viðbeinsbrot. Þarna fékk Hjörtur annað tækifæri til að totta pípuna og aftur gleymdist ítalska viðhaldið við tottið.
Eftir þennan velheppnaði 155 km hjólatúr voru hjólin sett á kerrur og haldið að Kirkjubæjarklaustri. Má taka hér fram að Haraldur og Októ sáu ekkert athugavert við heimilishald Kjartans í þetta sinnið, annað en að hann virðist vera í stríði við allar pottaplöntur og beiti þær mikið harðræði.

Sunnudagurinn 16. september

Menn tóku daginn snemma, en í misjöfnum tilgangi, sannar hetjur héldu til fjalla en hinir fóru í bæinn, Hjörtur sagðist þurfa að fara með ítalska viðhaldið í heim og fara að sinna eiginkonunni í staðinn, Guðmundur vildi ekki reyna frekar á öxlina þessa helgi og Sveinninn ungi þurfti að fara í Fjörðinn að sinna stelpunum sínum. Sá grunur læðist reyndar að manna eftir á að þeir Holsteinbræður hafi viljað eiga næðisstund saman í bílskúrnum við sína uppáhalds iðju.
En fyrir þá sem treystu sér til var önnur æfing í boði og þáðu Halli og Októ hana með þökkum. Var brottför um hálftíu leitið. Kjartan var búinn að boða það að á sunnudags-æfingunni yrði farið um ógeðslega grófan grjótslóða svo að menn voru við ýmsu búnir. Haldið var upp á fjöll rétt austan við Klaustur og komið þar inná skemmtilegan línuveg sem hlykkjast um heiðalönd og skilaði okkur á endanum inn að Leiðólfsfelli, þar er gamall gangnamannakofi. Þegar haldið var frá Leiðólfsfelli tóku menn eftir því að það var stríðnisglott á vörum Kjartans, hann leiddi strákana inná slóða sem liggur í gegnum hraunið upp með Hellisá. Fyrir mörgum árum hefur einhverjum rugluðum ýtustjóra tekist að naga sig gegnum þetta úfna apalhraun og á leiðinni í gegnum hraunið leiða menn hugann að því í hvaða tilgangi þessi vegur var lagður og hvaða gáfumanni skildi detta þessi framkvæmd í hug því að slóðinn er í einu orði sagt ömurlegur yfir að fara og greinilegt af öllum ummerkjum að langt var síðan hann hafði verið farinn (Kjartan vill taka það fram að ekki voru nema 2 vikur liðnar frá því að hann ók þennan yndislega slóða síðast). Þegar þessi úfni slóði var á enda var áð við gangnamannakofann í Hrossatungum. Kjartan var fyrstur að stíga af hjólinu og var greinilegt á svipnum á honum að hann beið eftir að fá skammir, kvart og kvein yfir slóðanum úfna sem nú var á enda. Kjartani varð hinsvegar ekki að ósk sinni því að Októ og Halli töluðu bara um hvað öll leiðin sem af var væri frábær og ekki minnkaði vonbrigðasvipurinn á honum þegar foringinn spurði milli titrandi varanna: “Hvenær komum við á grjótkaflann?”
(Aftur vill Kjartan grípa inn í og lýsir hann yfir megnri óánægju með þessar reifarakenndu staðhæfingar. Söguritarinn er ekki jafn sannleikselskandi og af er látið, orð Haraldar og Októs eftir þennan til þess að gera slétta grjóti lagða slóða eru ekki prenthæf, að auki kvartaði Októ yfir eymslum í handleggjum og nóta bene hann er með stýrisdempara og Haraldur var skjálfraddaður langan tíma á eftir, þetta getur sannleiksfús Kjartan vitnað um).
Úr Hrossatungum var farið eftir frábærum slóðum sem leið liggur inn með Hnútu og þaðan að Laka. Þessi hluti leiðarinnar er farinn að mestu leyti eftir tiltölulega sléttum sandslóðum og óku menn nokkuð greitt. Af og til var staldrað við vegna náttúruskoðunar. Eftir Laka var farið eftir slóða sem liggur í kringum Blæng en það er fjall austan við Laka. Leiðin kringum Blæng er mjög skemmtileg, stoppað var stutta stund við gamlan gangnamannakofa sunnan í Blæng (athygliverður kofi). Síðan var farið eftir slóða sem fer hjá Laufbölum og Miklafelli, gegnum Eldhraunið niður að Þverá. Hér var Kjartan aftur spurður: (röddin stöðugri núna) “Hvenær komum við á grjótkaflann?”. Frá Þverá var haldið smá spotta eftir þjóðvegi #1 til austurs og ekið niður á Brunasand og hrauninu fylgt frábæra leið sem að mestu var, hlykkjótt hjólför í grónu mýrlendi og Kjartan fór á kostum á olíubrennaranum. Frá Brunasandi var síðan ekið meðfram þjóðveginum, c.a.15 km leið að Klaustri. Þegar þangað var komið var Kjartan enn spurður: “Hvenær komum við á grjótkaflann?”. (Röddin orðin nokkuð stöðug í þetta sinnið).
Nú var Sunnudagsæfingin á enda og 157 km að baki, veðrið var frábært í ferðinni en skömmu eftir komuna að Klaustri byrjaði að rigna. Frábær æfing í góðum félagsskap.

Höf: Haraldur
Kjartan

Skildu eftir svar