Mikil tilhlökkun hefur verið hjá öllum keppendum. Á hún eftir að aukast svo um munar fram á laugardaginn. Hætta verður hinsvegar við sýningaratriði 5-11 ára krakka. Ástæðan er;
Fréttatilkynning var send fjölmiðlum fyrr í dag þar sem keppnin og sýningaratriði krakkanna var kynnt. Það liðu ekki margar mínúturnar þangað til Umferðaráð var komið með eintak og þar næst Sýslumaðurinn á Hellu. Sýslumaðurinn hafði samband við VÍH og fékk þær skýringar að um væri að ræða sýningaratriði sem væri ekki að öllu ólíkt því sem gerðist í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Börnin væru á viðurkenndum hjólum, hönnuð af þekktum vélhjólaframleiðendum, sérstaklega fyrir þennan aldurshóp. Einnig þá væri íþrótt þessi viðurkennd og stunduð í öllum Evrópulöndum. Taldi hann þetta skýra málið vel og sagðist vilja smá tíma til að ræða við menn og skoða málið. Síðar í dag kom síðan afsvar þar sem skýrt var tekið fram að sýningarakstur krakka undir 12 ára aldri væri bannaður.
Ekkert verður því úr Minicross-inu á morgunn. Bylgjan tók upp á því í dag og RÚV að birta fréttir þess efnis að búið væri að blása keppnina af. VÍH leiðrétti þetta samstundis og kom það skýrt fram á RÚV.
VÍH þykir það miður að Umferðaráð hafi ekki þekkingu á þessari íþrótt og stökkvi upp á nef sér án þess að hafa hugmynd um hvað þeir eru að tala. Fyrir utan Fjölskyldu- og húsdýragarðinn hefur tíðkast hér á Íslandi að setja upp litla krakkabraut með bílum. Bílar þessir eru ýmist rafknúnir eða með tvígengismótor. Ekið er um á lokuðu svæði með þann öryggisbúnað sem til þarf. Fróðlegt verður að heyra útskýringu Umferðaráðs á þessum mismun.
VÍH fagnar því að umræða um þessi mál er orðin opinber og mun vinna að þessum málum á næstunni. Krakkar eru og verða alltaf krakkar. Í því tilefni lét VÍH útbúa verðlaun fyrir alla krakkana sem átti að veita þeim fyrir sýningaratriðið. Mun VÍH sjá til þess að fljótlega verði haldin æfing fyrir krakkana þar sem hægt er að útdeila verðlaunapeningunum enda eru þeir merktir árinu 2001. GM.