Ferð Team KTM Shell – Coca-Cola – KitKat til Austurríkis heppnaðist vel
Tilfinningar íslensku Austurríkisfaranna voru blendnar þegar þeir horfðu upp eftir brautinni sem beið þeirra í skíðabrekkum hins 2000 metra háa fjalls við Saalbach Hinterglemm í Austurríki s.l. föstudag og höfðu menn á orði að þetta væri með því svakalegra sem þeir hefðu séð; þarna væri í orðsins fyllstu merkingu á brattann að sækja. Það átti líka eftir að koma í ljós við upphaf keppninnar á laugardagsmorgninum að menn þurftu að taka á öllu sínu og rúmlega það.
Snemma á föstudagsmorgninum mætti Team KTM Island, þeir Viggó Viggósson, Einar Sigurðarson, Jón B. Bjarnason og Helgi Valur Georgsson, ásamt liðsstjóranum Karli Gunnaugssyni, hjá KTM-verksmiðjunni í Austurríki, en þar biðu þeirra tvö splunkuný hjól sem verksmiðjan lánaði þeim til keppninnar. Nokkrum klukkustundum var eytt í að gera hjólin keppnisklár, en þetta voru KTM 200-hjól og KTM 400-Motocrosshjól.
Um fimmleytið á föstudeginum voru þeir svo komnir niður til Saalbach Hinterglemm til skráningar og brautarskoðunar. Mikil stemning var í bænum, sem var nánast undirlagður af þessari 4 daga mótorhjólahátíð sem var í fullum gangi. Flestir bæjarbúar, ásamt ótal fjölda gesta, voru þarna samankomnir til að skemmta sér og njóta hátíðarhaldanna. Um 560 keppendur á um 300 hjólum höfðu skráð sig til leiks í keppnina daginn eftir.
Keppnin hefst með látum
Það var svo í blíðviðri og 17 stiga hita að hin langa og erfiða keppni hófst kl. 10 á laugardag. Í ræsingu æddi allur þessi mikli fjöldi mótorhjóla af stað upp snarbratta brekkuna, en eftir aðeins um 500 metra akstur frá ráslínunni var brattinn orðinn svo mikill að meira en helmingur keppenda var stopp. Þarna voru menn að prjóna yfir sig og kútveltast svo sjálfir niður brekkurnar. Brattinn efst í brekkunni var svo mikill að menn áttu erfitt með að komast skríðandi að hjólunum eftir að hafa fallið af baki.
Einar ræsti fyrstur í A-liðinu og Viggó beið á meðan. Hann komst áfallalaust yfir þennan erfiða hjalla og hvarf inn í skóginn ásamt fremstu keppendum. Helgi Valur hóf keppnina fyrir B-liðið og Jón B. sat hjá fyrsta hring, en einn hringur í torförnu fjalllendinu tók um eina klukkustund.
Eftir fyrsta hring skiptu liðin um keppendur og Viggó lagði í hann fyrir A-liðið og Jón fyrir B-liðið. Viggó lenti í hremmingum í erfiðum brekkunum, sem endaði með því að mótorinn yfirhitnaði og kúplingsslanga brann í sundur. Í stað þess að gefast upp tók Viggó á að það ráð að bera hjólið upp erfiðustu brekkuna. En hjólið var úr leik og hvað var nú til ráða?
Heimsmeistarinn lánar hjólið sitt
Nú komu tengsl Karl Gunnlaugssonar frá keppnisferlinum sér vel. Með sitt eigið lið var á staðnum gamall kunningi Karls, Heinz Kinigadner, en þeir höfðu m.a. keppt saman í arabíska furstadæminu Dubai. “Kini”, eins og Heinz er oftast kallaður, var heimsmeistari í Motocrossi 1984 og 1985, og hann brást þarna skjótt við og bauðst til að lána Karli sitt eigið KTM 520-hjól sem hann var með úti í bíl. Hraðar hendur voru nú hafðar við að skipta um dekk og númeraplötur, en tími hafði tapast og fremstu keppendur komnir með um 2 hringja forskot á þá Viggó og Einar.
Þetta var í fyrsta skipti sem leyfi hafði fengist til að keppa í skíðabrekkunum við Saalbach Hinterglemm og þegar mótshaldarar áttuðu sig á því hversu rosalega erfið brautin var, var henni breytt upp úr hádeginu og gerð léttari. A-liðið náði sér fljótt á strik á hjólinu hans “Kini” og þegar um 4 tímar voru liðnir af keppninni, eða um tvöleytið um daginn, voru þeir Einar og Viggó í 37. sæti.
Allir tóku þátt í hátíðarhöldunum
Eins og fyrr sagði var stemningin á staðnum feiknagóð og fjöldi manns fylgdist af áhuga með keppninni. Talsvert var af áhorfendum við brautina inni í skógunum og voru sumir þeirra vopnaðir kaðalhönk og stórri þríkrækju til hífa upp keppendur sem lentu í erfiðleikum. Fjöldi fólks var einnig staddur á veitingastað uppi í fjallinu, en þar óku keppendur í gegnum talningarhlið og þulur lýsti stöðunni og gangi mála í hátalarakerfi.
Aukið afl, stærra svinghjól og fleiri kostir KTM 520 hjólsins hjálpuðu A-liðsmönnum mikið á lokakaflanum þegar þeir náðu jafnt og þétt að minnka forskot fremstu ökuþóranna. Þeir kláruðu svo keppnina í 25. sæti, sem verður að teljast nokkuð gott, því af þeim 300 hjólum sem ræst höfðu um morguninn luku aðeins um 168 hjól keppni. Helgi og Jón B. stóðu sig einnig mjög vel og enduðu í 36. sæti, sem var um 2 hringjum á eftir Einari og Viggó.
Aldrei lent í öðru eins
Þó þeir Einar og Viggó hafi mikla reynslu af keppnum hér heima og hafi einnig keppt í Bretlandi, höfðu þeir á orði að þeir hefðu aldrei lent í öðru eins. Þarna hafi þeir þurft að reyna margt sem þeir höfðu áður talið ógerlegt að framkvæma á mótorhjóli.
Um kvöldið fór svo fram verðlaunaafhending á fyrrnefndum veitingastað í fjallshlíðinni og var hún í stíl við allt annað þennan daginn; gríðarlegur mannfjöldi samankominn, mikil stemning, sungnir austurrískir þjóðsöngvar og heilmikið skemmtanahald langt fram eftir kvöldi.
Það voru þreyttir en glaðir íslenskir keppendur sem lögðust til hvílu á laugardagskvöldinu eftir að hafa upplifað eitt magnðasta mótorhjólaæfintýri lífs síns og víst er að ferðin til Austurríkis verður lengi í minnum höfð.