Vefnum hefur borist svar við athugasemd á ískeppni frá Steina Tótu.
VÍH og Mývetningar standa sameiginlega að mótaröð í ísakstri sem hefur verið ákveðið að sé til Íslandsmeistara. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við VÍK og MSÍ. Þetta er í fyrsta skipti sem slík mótaröð er haldin til Íslandsmeistara og liggja ekki fyrir neinar eldri reglur þar um. Reglur eru samdar upp úr reglum sem notast var við á síðasta ári í æfingakeppni á vegum VÍK. Einnig hefur verið stuðst við reglur erlendis frá og reynslu úr æfingamótum á Mývatni. Sú fullyrðing Steina að það séu til reglur er því röng. Hvað varðar naglafjöldann í verksmiðjuframleiddum dekkjum, þá var stuðst við vörulista frá Trelleborg og Michelin þegar hann var ákvarðaður. Við getum ekki séð að það séu til verksmiðjuframleidd dekk frá þessum framleiðendum með fleiri nöglum. Þetta eru þau dekk sem eru almennt í notkun hérlendis og ríkir almenn sátt um að séu sett saman í flokk. Allur annar dekkjabúnaður innan marka um lengd gadda og hámarksfjölda í dekki fer í opinn flokk. Það er því ekki verið að útiloka neinn frá keppni.
Með vinsemd og kveðju
Aron Reynisson