Það var ekki ofsögum sagt í frétt frá 25.06.02 @23:13 þar sem sagt er að enginn fái að komast upp með að stela einhverju frá hjólamönnum. Kerran hans Haralds fannst eftir að búið var að lýsa eftir henni á vefi motocross.is og enduro.is.
En…. einhver faraldur virðist vera í gangi. Nú er búið að stela annarri kerru sem var stolið aðfaranótt síðastliðins sunnudags. Ekki er til nein mynd af kerrunni en kerran er auðþekkt og vefnum hefur borist greinagóð lýsing á henni.
Þetta er yfirbyggð tveggja sleða kerra á einum öxli. Yfirbyggingin er hvít niður fyrir miðju (ál) en brún (krossviður) eftir það. Það sést móta fyrir ýmsum auglýsingum sem voru á kerrunni, mest áberandi er Husquarna auglýsing sem var á hliðum kerrunnar. Á afturgafli er auglýsing frá Völusteini ofl. Afturgafl opnast í tveimur hlutum og það er gæjugat (lúga) á framgafli með báðar lamir í lamasessi. Framan á beislinu er lítið handvirkt spil sem vantar vírinn á. Kerran er ekki á númerum. Í kerrunni eru (voru?) varahlutir í Scout jeppa, m.a. hurðir og afturgafl, og mótorhjól Honda CR 250 árg. ’87. Hjólið er rautt og hvítt ala Honda og er mjög auðþekkt þar sem það er hommi (kickstart vinstra megin og gírskipting hægra megin) og er með vatnskældan tvígengismótor.
Ef einhver hefur orðið var við kerruna eða hlutina úr henni þá vinsamlegast hringið í Odd Ólafsson í gsm 892 7702 eða Sigurð Grímsson í gsm 892 3886 eða Lögregluna í Reykjavík í síma 569 9000.
Oddur er sanngjarn maður og greinilega tilbúinn að beita vægustu refsingu þar sem hann botnaði kerru og hjóla lýsinguna með eftirfarandi;
Ef þjófurinn les þetta og skilar kerrunni óskemmdri ásamt hlutunum sem í henni eru, þá lofa ég að biðja Dýra bara að nota aðra hendina þegar hann lemur þig. Annars……