Á vef ÍSÍ þann 15 nóvember síðastliðinni birtist neðangreind grein á forsíðunni.
„Tillaga að framtíðarfyrirkomulagi akstursíþrótta
Á framkvæmdastjórnarfundi ÍSÍ í gær var rætt um ósk nokkurra akstursíþróttafélaga, sem eru nú þegar innan íþróttahreyfingarinnar, um að akstursíþróttir og skipulag akstursíþróttakeppna verði alfarið og eingöngu innan vébanda ÍSÍ og samkvæmt lögum og reglum íþróttahreyfingarinnar. Í hugmyndum félaganna kemur jafnframt fram að eðlilegt sé að ÍSÍ stofni sérstakt sérsamband – Akstursíþróttasamband Íslands og að lýðræðislega kjörin stjórn hins nýja sérsambands muni í samráði við fulltrúa Dómsmálaráðuneytisins gera tillögur að nýrri reglugerð um akstursíþróttir. Dómsmálaráðherra skipaði nefnd fyrir all nokkru síðan til að fjalla um endurskoðun á reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni. Nefndin hefur ekki komið saman í nokkuð langan tíma og telja félögin að hún muni ekki skila áliti sem getur talist ásættanlegt. Á fundi framkvæmdastjórnar í gær var ákveðið að fylgjast með þróun mála og knýja á um niðurstöður í ráðherranefndinni. Í framhaldinu mun stjórn ÍSÍ taka málið upp aftur.“