Föstudaginn 17. janúar s.l. var í Vestmannaeyjum valinn íþróttamaður ársins 2002. Fyrir valinu varð Vigdís Sigurðardóttir handboltakona. Einnig voru valdir íþróttamenn allra aðildarfélaga að ÍBV Héraðssambandi.Að sjálfsögðu áttum við vélhjólamenn okkar fulltrúa í því vali enda er VÍV (Vélhjólaíþróttafélag Vestmannaeyja) orðið fullgildur aðili þar. Fyrir valinu hjá vélhjólamönnum varð hinn síungi refur Sigurður Bjarni Richardsson. Siggi hefur keppt í crossinu í mörg ár og ætti fyrir löngu síðan að hafa orðið Íslandsmeistari. Hann varð 4. í eyjacrossinu sem kom mörgum á óvart og sögðu menn að hann hafi með því sett allt Íslandsmótið í uppnám. Þó árangurinn í hinum keppnunum hafi ekki verið upp á marga fiska vann hann sér inn nokkur stig til viðbótar og endaði tímabilið með 47 stig sem setti hann í 12. sæti. Siggi var líka í KTM-Racing liðinu og unnu þeir Íslandsmeistaratitilinn í liðakeppninni. Má þar helst þakka glæsilegan og öruggan akstur hans á heimavelli þar sem hann Rakaði inn stigum. Því miður mun það hafa verið hans síðasti rakstur á ferlinum því nú er Siggi kominn á kaf í hestamennskuna, við lítinn fögnuð undirritaðs. Því eins og flestir vita er hrossakjöt best saltað í tunnu. En við getum huggað okkur við þá staðreynd að þetta mun vera í fimmta skiptið sem Siggi gefur slíka yfirlýsingu – um að hann sé „Hættur“ í crossinu! Ég ætla því ekki að gefa upp alla von um að Siggi snúi aftur með glænýtt KTM á pikkanum og fjórar tunnur af söltuðu hrossakjöti. Með von um gott hjólasumar og glæsilega hjólaframtíð. Sigurjón Eðvarðsson form. VÍV