Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins voru mál Ólafsfjarðar tekin fyrir. Undanfarið hefur Sýslumaður verið upp á kant við Vélsleðaklúbb Ólafsfjarðar, verktaka á Ólafsfirði og bæjaryfirvöld. Menn hafa verið að munnhöggvast misgróflega og eitthvað hefur verið um bréfaskriftir manna á millum.
Varð því úr að Dómsmálaráðuneytið sendi fulltrúa til Ólafsfjarðar til að ræða við Sýslumann en þar sem engin „formleg“ kvörtun hafði borist ráðuneytinu ræddi fulltrúi (eða fulltrúar) ekki við neinn annan.
Niðurstaða ráðuneytisins er sú að Sýslumaður hafi í engu farið hamförum með vald sitt.
Svo virðist sem halda eigi fund í dag eða á næstu dögum milli bæjaryfirvalda og Sýslumanns þar sem bæjaryfirvöld telja aðgerðir sýslumanns skaða hag bæjarins.
Er það von vefsins að fréttastofur taki þetta mál til nánari umfjöllunar.