3.ju umferð Íslandsmótsins í Motocross sem halda átti á Selfossi s.l. sunnudag var frestað vegna úrhellis rigningar fyrir keppni sem gerði brautina ónothæfa. Einnig setti það miður gott strik í reikninginn að ekki fékkst leyfi sýslumanns fyrir keppni unglinga í 80cc flokki. Strax í gærmorgun (mánudagsmorgun) var sótt um keppni að nýju n.k. sunnudag, 17. ágúst hjá sýslumanni Selfoss. Eftir viðræður við hann kom strax í ljós að erfitt yrði að fá leyfi fyrir keppni – nema að gefnum þeim forsendum að öll keppnishjól verði með skráningarplötur og tryggingar í lagi…!!! Lög og reglugerðir má oft túlka á fleiri en einn veg en í 25 ár hafa allir sýslumenn landsins túlkað lögin á þann hátt að keppnistæki í lokaðri braut sé ekki skráningarskylt. Sýslukona Ólafsfjarðar túlkar málin á annan hátt og hennar viðhorf virðist hafa náð undarlegri rótfestu hjá sýslumanni Selfoss.
Stjórn VÍK undir forystu Hákons formanns vinnur hörðum höndum að lausn þessa máls og hefur verið í sambandi við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og hans ráðunauta til að fá þeirra álit á reglugerðinni. Vélhjólaíþróttamenn eiga orðið Hauka í flestum hornum og nú sem fyrr hefur verið leitað til allra bandamanna til stuðnings okkar málstað, hvort sem það eru önnum kafnir Ráðherrar sem vaktir eru upp um miðjar nætur í óopinberum Evrópuferðum, eða færustu lögmenn lands og þjóðar sem nýlega hafa verið smitaðir af hjólabakteríu okkar.
Von er á frekari upplýsingum í hádeginu á miðvikudag um það hvort leyfi fáist til að halda mót á Selfossi n.k. sunnudag. Til vara hefur verið sótt um leyfi fyrir móti í Ólafsvík sama dag og verður svo fljótt sem auðið er tekin ákvörðun um hvort sú lausn verði farin. Að þriðja kosti frestast keppnin fram yfir Álfsneskeppnina sem haldin verður 23. ágúst. f.h. stjórnar VÍK, Bjarni Bærings
PS: Ef allt um þrýtur er möguleiki að halda mótið í Vestmannaeyjum á Jóladag, 25. desember. Herjólfur fer til eyja á Þorláksmessu kl. 06.30 og kemur til baka þriðja dag jóla kl. 23.30. Gistiheimilið Hraunið býður 2 fyrir 1 á svefnpokapláss án dýnu og Pizza Plástur býður ókeypis brauðstangir með 16″ flatbökum – ef sótt!!!