Erum við útlagar?

Góðan daginn og Gleðilegt ár, ef það telst gleðilegt að vakna, borða Cherios og lesa Morgunblaðið laugardaginn 3. janúar.

Á íþróttasíðum blaðsins er mynd og grein um “53 íþróttamenn heiðraðir af  ÍSÍ” frábært !

Framúrskarandi og góðir íþróttamenn heiðraðir fyrir afrek sín á árinu sem var að líða, Badmington, Blak, Borðtennis, Dans, Fimleikar, Frjálsíþróttir, Golf, Glíma, Handknattleikur, Íþróttir fatlaðra, Júdó, Karate, Keila, Körfuknattleikur, Knattspyrna, Hestaíþróttir, Lyftingar, Siglingar, Róður, Skautaíþróttir, Skíðaíþróttir, Skotíþróttir, Sund, Taekwondo, Tennis, Skylmingar, Hnefaleikar, Hjólreiðar og Skvass.

En halló, akstursíþróttir, nei engan sá ég á listanum enda Vélhjólaíþróttaklúbburinn ekki nema 25 ára !

Hvað þurfum við að gera til að fá viðurkenningu á sportinu okkar ?

Smá upprifjun, VÍK var innan LÍA Landsambands Akstursfélaga þangað til fyrir 4 árum þegar MSÍ Mótorsportsamband Íslands var stofnað í janúar 2000. Markmið MSÍ var að sameina hagsmuni mótorhjóla og vélsleðamanna í keppnisíþróttum samanber skiptingu heimssambandanna FIM (2, 3, 4 hjól og sleðar) og FIA (bílar).

Með tilkomu MSÍ árið 2000 hefur uppgangur “sportsins okkar” verið þvílíkur,

50 – 100 keppendur í hverri keppni í Íslandsmótinu í MX eða Enduro svo ekki sé minnst rúmlega 200 keppenda á Klaustri í maí 2003.

Engu að síður er ÍSÍ að tefja fyrir ingöngu MSÍ sem sérsambands með því að reyna að koma þessum (MSÍ og LÍA) samböndum inn sem einu sérsambandi í ÍSÍ.

Ég spyr þá af hverju er ekki Karate og Taekwondu innnan Júdósambands Íslands, þetta eru jú allt austurlenskar sjálfsvarnaríþróttir, eða Skautaíþróttin með Skíðasambandinu.

Það er með öllu óþolandi að við séum alltaf settir út í horn, keppnisleifi, brautarsvæði, ofl.ofl.

MSÍ og félög innan þess uppfylla nú þegar eða með litlum breytingum skilyrði til inngöngu sem sérsamband í ÍSÍ, að ætla að þröngva okkur með öðrum akstursíþróttum eins og Rally og Torfæru er ekkert annað en kúgun og verið er að halda verulega aftur af  framgöngu “sportsins okkar”.

Hópur góðra manna hefur unnið mikla og góða vinnu til að koma okkur þangað sem við erum komnir, þeir ykkar hinir sem lumið á hugmyndum til að koma okkur enn lengra stígið fram og látið í ykkur heyra.

Ég get engan veginn þolað að vakna 3. janúar 2005, fá mér hollan og staðgóðan morgunverð og sjá enga mótorhjóla / vélsleðamenn á lista þeim sem ÍSÍ kemur til með að heiðra fyrir frammistöðu sína á árinu sem er að hefjast.

Guð gefi ykkur fulla ferð og ………………..

Kveðja,

Karl Gunnlaugsson

Skildu eftir svar