Í umræðum og greinaskrifum undanfarið um hverjir geta keppt til Íslandsmeistara í motocross og hverjir ekki, má sjá hin sér Íslenska einkahagsmuna molbúahugsunarhátt í hnotskurn. Menni vilja öll réttindi til að keppa og safna stigum í öðrum löndum, en ekki virða þær skyldur sem því fylgja gagnvart öðrum. Þegar það er talið hennta er gripið til tilvísana í reglur sem menn eru ekki aðilar að og keppnisgreina sem koma motocross ekkert við máli sínu til stuðnings.
Motocross er FIM keppnisgrein. FIM er viðurkennt af alþjóða olympíunefndinni og FIA, sem eru systursamtök FIM hvað varðar keppnir á bílum. Reglur FIM eru að flestu leyti hliðstæðar reglum FIA, sem ég þekki mjög vel. Það væri því nær að sækja í reglur FIM en reglur um tennis, pílukast, skák eða annað.
MSÍ er ekki aðili að ÍSÍ, FIM eða öðrum alþjóðlega viðurkenndum samtökum. MSÍ hefur heldur ekki neinar reglur um íslandsmeistarakeppnir og því koma þessi vandamál upp núna. Við erum aftur á móti stödd á Íslandi, sem er aðili að EES samningnum, sem er hluti af Evrópusambandinu hvað varðar ákveðin atriði eins og frjálsan og gagnkvæman flutning varnings, fjármagns og fólks milli landa innan svæðisins. Samkvæmt því er bannað að mismuna fólki eftir litarhætti, kyni, trú og þjóðerni innan samningssvæðisins. Evrópusambandið viðurkennir FIA og FIM.
Því er það þannig, að FIA og að ég held FIM hefur gengið frá fyrirkomlagi sem gildir sérstaklega innan svæðisins. Það hljóðar í stuttu máli þannig, að ríkisborgarar landa innan svæðisins hafa jafnan rétt og ríkisborgarar viðkomandi lands og bera einnig jafnar skyldur. Annað á við um ríkisborgara landa utan svæðisins eins og t.d. Bandaríkjanna. Landskeppnir og meistarakeppnir innan svæðisins eiga að vera opnar fyrir öllum borgurum EB og EES. Þetta er það fyrirkomulag sem FIA hefur viðhaft undanfarin ár. Ítali getur orðið bretlandsmeistari í Rally, Dani í Svíþjóð o.s.frv. Bandaríkjamaður, Japani eða Afríkubúi getur það ekki.
Það að breyta eða búa til reglur eftir að keppnistímabil er hafið og viðkomandi hefur tekið þátt og safnað stigum gengur einfaldega ekki. Keppandinn verður að fá að njóta vafans og menn að nota það sem stendur þeim næst. Það að mínu viti eru reglur FIM og það fyrirkomulag sem gengur og gerist í þeim löndum sem Ísland er samningsbundið við og viðhaft er í þeim löndum sem um ræðir, þ.e. Íslandi og Svíþjóð í þessu tilfelli. Gæti Íslendingur þannig orðið Svíþjóðar meistari í motocross? Það er spurningin sem þarf að svara í þessu tilfelli, en ekki hvað gert er í tennis. Við gætum þá allveg eins sótt tilvísun og samanburð í Sumo glímu í Japan og fært rök fyrir því að það ætti við hér, þar sem hjólin væru framleidd í Japan.
Mín niðurstaða er því sú, að ríkisborgarar landa á evrópska efnahagssvæðinu eiga fullan rétt á að keppa til Íslandsmeistara í motocross, sem og í öðrum greinum akstursíþrótta, en ríkisborgarar landa utan svæðisins ekki. Þetta er háð því að vera með gilt keppnisskírteini í viðkomandi landi skv. reglum. Ég myndi telja að dómstólar myndu komast að sömu niðurstöðu
Ólafur Guðmundsson,
Félagi í VÍK, Snigill #1000 og alþjóðlegur dómari FIA í Rally, GT, F3000 og F1.