Það er leitt þegar allir eru dæmdir vegna nokkurra svartra sauða, en þannig er það alltaf, sama í hvaða félagsskap menn eru í. En það er ótrúlegt hvað landverðir eru duglegir að kasta rýrð á mótorhjólamenn eins og birtist í þessari grein
Mótorhjólamenn á Fjallabaki.
Það er leitt þegar allir eru dæmdir vegna nokkurra svartra sauða, en þannig er það alltaf, sama í hvaða félagsskap menn eru í. En það er ótrúlegt hvað landverðir eru duglegir að kasta rýrð á mótorhjólamenn eins og birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 13 júlí, þegar annar hópur, mun stærri, fer sínu fram á friðlandi án þess að á það sé minnst.
Er ég hér að tala um hestamenn sem fara í stórum hópum um landið og oft beint af augum. Mikið er um að þessir hópar fari eftir reiðleiðum sem eru vel markaðar eftir aldanna rás og er það vel, en þegar sandar eru framundan virðast þeir fara beint af augum og velja sér ekki einu sinni leiðir sem stinga síður í augun fyrir aðra ferðalanga. Ég hef orðið var við vaxandi för í landslaginu eftir þessa hópa bæði í Friðlandinu að fjallabaki og svo á svæðinu við Kerlingarfjöll. Það er riðið beint af augum, þvert á vegi, upp á hóla og hæðir og af því er virðist, alveg eftir geðþótta hvers hóps, í stað þess að fylgja öðrum förum. Ekki er farið upp gilskorninga sem stinga síður í augu heldur upp berar hlíðar sem sjást vel frá akvegum sem gönguleiðum.
Í Fyrrasumar var ég að aka um Fjallabak á mótorfák mínum er ég rakst á förin sem sjást á myndinni. Myndin er tekin rétt sunnan við Eskihlíðarvatn og eins og ábyrgir mótorhjólamenn vorum við að keyra eftir vegum er við rekum augun í þessi för. Höldum við leið okkar áfram að Sigölduleið, norður fyrir Löðmund og Valafell og er við komum í Áfángagil eru það fyrir hestamenn að nærast. Við stöðvum tækin og bjóðum góðan daginn og er þá strax hreitt í okkur hvort við höfum verið að spóla í hlíðunum sunnan við skálann. Ég hvað svo ekki vera, hefði aðeins verið að fylgja vegum og vegslóðum og kvöddumst við svo í góðu eftir stutt spjall. Er ég er svo kominn á Dómadalsleið á leið suður sé ég hlíðarnar sem hann var svo sár að hafa séð mótorhjólaför í, ekki tók ég eftir mótorhjólaförum frá veginum séð en 10 metra breið reiðslóð var áberandi og lá beint yfir hóla, mela og mosa.
Með þessum skrifum er ég ekki að kasta rýrð á hestamenn, heldur benda á að jafnræði þarf að vera í umfjöllun og sanngirni sýnd öllum. Það getur verið í lagi að það séu “viðurkenndar” reiðleiðir í gegnum fjöll og beint af augum, en myndi þá nokkuð saka að mótorhjólamenn notuðu sömu leiðir, ekki er umferð hestamanna slík né hjólamanna að ef allir sýna ábyrgð og tillitsemi í umgengni við hvorn annan þá eigum við samleið.
Nú eru hestamenn að byrja skipulagða skráningu á reiðleiðum á hálendinu í samstarfi við Landmælingar Íslands, með tíð og tíma munu þessar leiðir þar af leiðandi festast í sessi og er það von mín að þetta skipulag komi fleirum að notum til að koma í veg fyrir óþarfa landspjöll utan vegslóða.
Í lokin vil ég taka fram að í akstri mínum um Vatnsendahverfið í sumar og vor fékk ég oftar þakkir fyirr tillitsemi en skammir frá hestamönnum, en skammirnar fuku stundum þótt saklaus væri ég að aka á mínu skráða mótorfák um götur höfuðborgarsvæðisins.
Ríkarður Sigmundsson
Félagi í VÍK