Fjöðrunin stillt

Ragnar Ingi Stefánsson skiptir um gorm í afturdempara. Hann segir mikla vakningu meðal hjólafólks um mikilvægi þess að stilla fjöðrun rétt.

EF það er eitthvað eitt á torfæruhjóli sem verður að halda vel við og stilla rétt, þá er það fjöðrunin. Þrátt fyrir það eru ótrúlega margir sem láta það sitja á hakanum að stilla fjöðrunina við sitt hæfi og missa þar með af tækifæri til að láta aksturseiginleika hjólsins njóta sín. Til þess að fá botn í þessi mál skulum við leita til manns sem er flestum fróðari þegar kemur að fjöðrun. Gefum Ragnari Inga Stefánssyni í Vélhjólum og sleðum orðið og athugum hvort hann lumi ekki á góðum húsráðum fyrir hjólafólk.

Ragnar: Það skiptir öllu máli að stilla hjólið fyrir þína þyngd, tegund af akstri og getu. Þegar fjöðrunin virkar rétt ertu líka öruggari, ferð sjaldnar á hausinn og endist lengur við bæði leik og keppni!

Við byrjum á að athuga hvernig hjólið er stillt miðað við þína þyngd og um leið athuga hvort þörf sé á stífari eða mýkri gormum til að fá allt til að virka rétt!

Byrjum á afturfjöðruninni. Það eru nokkur illþýðanleg hugtök sem koma við sögu þegar fjöðrun er annars vegar og það fyrsta er svokallað „sag“, þ.e. hversu mikið afturfjöðrunin sígur saman þegar að þú situr á hjólinu. Það á að vera ca 1/3 af heildar slaglengd fjöðrunarinnar. 125 cc og stærri hjól ættu að hafa frá 90 – 100 mm „sag“ og 80 cc hjól eiga svo að hafa 80-90 mm „sag“.

Nú á afturfjöðrunin að síga saman undir eigin þunga (án ökumanns) eftirfarandi: 125 cc hjól og stærri 15-25 mm (er nothæft með 10-30 mm), Cannondale/KTM og Husaberg mæla reyndar með 25-30 mm. 80 cc ættu að síga niður milli 10 og 20 mm. Gorminn í afturfjöðruninni má svo hækka eða lækka til að ná ofantöldu bili.

Demparar virka í tvær áttir, í samslagi (compression) og sundurslagi (rebound) og má stilla hvort tveggja.

„Rebound“-dempun merkir hversu hægt/hratt fjöðrunin slær í sundur aftur, eftir að vera þrýst saman.

Reynið að sjá hvort afturdekkið fylgir jörðinni (ofan í holur) án þess að fjaðra of mikið.

Sé „rebound“ fjöðrunarinnar of lítið fjaðrar hjólið upp og niður smástund eftir stóra holu. Sé það hinsvegar of mikið nær afturdekkið ekki að fara ofan í holurnar og þú missir grip á gjöf og eða afturendinn sparkar þér upp eftir að hafa keyrt í gegnum nokkrar holur í röð. Það er gott að láta einhvern horfa á hvernig dempunin virkar eða taka aksturinn upp á myndband og skoða sjálfur. Á hörðum brautum þarftu yfirleitt minni rebound og á mjúkum meira. „Compression“ dempun er viðnámið í fjöðruninni þegar að hún fer saman. Stillingin fyrir „compression“ er efst á aftur dempara. Reynið að stilla eins mjúkt og hægt er. Sé „compression“ of mikil þá verður hjólið hast og skoppar oft til hliðar í hvössum holum, gleypir ekki stóru ójöfnurnar og kastar þér upp að aftan.

Þið munið e.t.v. eftir tilraunadýrinu okkar frá því í vor þegar við tókum ársgamalt Yamaha WR450 og hresstum aðeins upp á það. Í sumar hefur hjólinu verið ekið tæpa 1.000 kílómetra og það séð æði margt og misjafnt. Það hefur hinsvegar reynst afar vel, aldrei slegið feilpúst og skrifast það á gott og reglubundið viðhald, s.s. regluleg olíuskipti eins og minnst var á í upphafi sumars.

Næst eru það framdempararnir. Til þess að ná jafnvægi milli aftur- og framfjöðrunar þurfum við að ýta niður á fótstigin (á ská fram á við, í sömu stefnu og framdempararnir halla) og halda um leið í frambremsuna og athuga hvort hjólið fjaðri álíka mikið að framan og aftan. Ef það gerir það eru gormarnir líklega réttir. Annars er spurning um að skipta um gorma eða breyta „preload“ eða forspennu gormanna. Ef framhjólið hoppar upp eftir lendingu frá stórum stökkum þá hefur þú of litla „rebound“-dempun að framan. Ef framfjöðrunin nær ekki að fara nógu mikið í sundur á milli ójafna (holna) þá hefur þú of mikla „rebound“-dempun. Við þessar aðstæður verður framgaffallinn oftast hastur. Það er mjög erfitt að stilla „rebound“-dempun á framgöfflum. Þá er bara að prófa sig áfram. Reglan er að fara ekki of langt frá upphaflegu stillingunni nema ef skipt er um gormana sjálfa innan í dempurunum. Hvað varðar samslag (compression) framfjöðrunar mæli ég með því að hún sé eins mjúk og hægt er, svo lengi sem hún slær ekki ítrekað saman í akstri. Munið að fjöðrunina á alltaf að stilla eftir því hvað þér finnst best, ekki hvað aðrir halda.

Að lokum hvað varðar umhirðu og viðhald, þá þarf að skipta um olíu í bæði fram- og afturdempurum allavega einu sinni á ári. Þú getur reyndar reiknað með að sprengja pakkdósir á framdempurum allavega einu sinni á ári, það þykir eðlilegt. Afturdemparar „springa“ mun sjaldnar. Því nýrri sem olían er á dempurunum því minni líkur eru á því að pakkdósirnar springi þegar keyrt er í frosti og kulda auk þess sem virkni demparanna helst betri þó að þeir fari að hitna. Margir vita ekki að það þarf líka að smyrja alla hreyfifleti í afturfjöðrun allavega einu sinni á ári en oftar ef menn stunda vatnssull í miklum mæli. Þetta kann að hljóma flókið en er í raun mjög auðskilið. Allt sem þarf er smávegis tími og þú uppskerð margfalt.

ÞK

Skildu eftir svar