Sunnudaginn 12. september, 2004 – Aðsendar greinar
Taka skýra afstöðu til landsskemmda
Jakob Þór Guðbjartsson skrifar um vélhjólaíþróttamenn: „Slóðar og einstígar sem við ökum á eru okkur jafnmikilvægir og gott samstarf við aðra útivistarhópa.“
Jakob Þór Guðbjartsson
ÉG VIL byrja á því að þakka Ara Trausta fyrir fróðlega grein um ferða- og umhverfismál hér í Morgunblaðinu 30. ágúst síðastliðinn. Í greininni vakti hann athygli á þeim vanda sem vélhjólaíþróttamenn standa frammi fyrir, en það er óábyrgur akstur fámenns hóps.
Innan vélhjólaíþróttageirans eru starfræktir klúbbar sem vinna að framgangi íþróttarinnar. Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) er þeirra stærstur og hefur í 26 ár barist fyrir því að fá viðunandi og varanlega æfingaaðstöðu fyrir félagsmenn sína. Þrautaganga stjórnarmeðlima í þessum málum hefur verið þyrnum stráð og oftar en ekki er talað fyrir daufum eyrum þegar sjónarmið klúbbsins hafa verið kynnt. Á síðasta ári fékk félagið þó úthlutað svæði til afnota sem nýtist aðeins hópi hjólamanna sem æfa og keppa í motocrossi. Á sama tíma hafa tilraunir félagsins til að fá úthlutað svæði þar sem hægt væri að stunda svokallaðan þolakstur (enduro) í náttúrulegu landslagi ekki borið árangur. Aukin umferð mótorhjóla er því að hluta til afleiðing aðstöðuleysis.
Síðan umræða um utanvegaakstur mótorhjóla fór af stað hefur það sýnt sig að langflest mótorhjólafólk fordæmir slíkt sem og annan óábyrgan akstur. Samstaða í okkar hópi er mikil og ljóst að við ætlum ekki að láta langan tíma líða þar til svona hegðun heyrir sögunni til. Ég held að allir þeir sem eiga og nota torfæruvélhjól séu sammála um að glæfralegur og ólöglegur akstur vélhjóla á göngustígum í borgum og bæjum, og þar með talið göngustíga í Heiðmörk eins og Ari Trausti nefnir, sé alls ekki íþróttinni til framdráttar. VÍK fordæmir því slíka hegðun.
Í grein sinni talar Ari Trausti um eigendur torfæruvélhjóla og fjórhjóla sem kunni ekki að fara með tækin sín á ábyrgan hátt. Ég geri ráð fyrir að hér sé vísað til þess að ökumenn vélhjóla geri sér ekki grein fyrir hvar brúka eigi tækin. Það sem vélhjólaíþróttamenn gætu túlkað sem ábyrga landnotkun getur farið fyrir brjóstið á öðrum útivistarhópum. Akstur vélhjóla á einstígum, ruddum af sauðfé eða hófum hesta gæti talist til ábyrgrar landnýtingar af einhverjum iðkendum íþróttarinnar, því ekki er verið að búa til ný för, heldur nýta þau sem fyrir eru. Á hinn bóginn er stefnulaus og oft á tíðum ónauðsynlegur akstur utan slóða og einstíga algjörlega óábyrg landnotkun og engum til sóma. Þótt ábyrgð gerenda sé óumdeilanleg, liggur ábyrgðin einnig ofar í stjórnkerfinu. Einhvers staðar heyrði ég að eftir höfðinu dansi limirnir. Á meðan bæjarstjórar og skipulagsyfirvöld sýna ekki vélhjólaíþróttamönnum skilning á ég bágt með að sjá hvor sýnir meira ábyrgðarleysi, bæjarstjórinn sem neitar að viðurkenna að íþróttin sé til eða ökumaður vélhjóls sem keyrir eftir löngu aflögðum slóðum. Hingað til hafa beiðnir vélhjólaíþróttafólks um æfingarsvæði fengið dræmar undirtektir hjá yfirvöldum og finnst okkur það viðhorf sýna fádæma ábyrgðarleysi. Hvar væru íþróttamenn í boltaleikjum ef ekki væru byggðir upp vellir fyrir þá? Jú, líklega úti á götu eða á bílastæðum. Við erum líka íþróttamenn, en á hrakhólum.
Á Reykjanesi ríkti stríðsástand um allnokkurn tíma og voru torfæruvélhjólaiðkenndur hraktir frá ósamþykktum æfingasvæðum á láglendi og upp til fjalla. Þetta hefur valdið því að Sveifluhálsinn og svæðið þar í kring er að verða mjög illa farið af völdum vélhjóla. Margt af því sem þar er að gerast er smánarblettur á sportið. Það er umhugsunarvert að á sama tíma og ný spólför myndast í hlíðum Sveifluhálsins er lokaður aðgangur fyrir æfingar hjólamanna í gamalli sandnámu Vegagerðarinnar við Djúpavatnsleið. Gengið var hart fram í þessu máli af hálfu löggjafans og sektarbeitingum beitt gegn íþróttamönnum í leit að æfingarsvæði.
Ari Trausti bendir réttilega á að torfærutækjaeign landsmanna hafi aukist. Að sama skapi fjölgar þeim sem stunda útiveru almennt. Göngufólk á grófbotna skóm sækist í fjöll og skóglendi höfuðborgarsvæðisins sem kallar á framkvæmdir sem spilla landsvæði sem áður var óspillt. Til að koma til móts við þennan útivistarhóp eru lagðir göngustígar og jafnvel malbikuð bílastæði. Aðrir útivistarhópar virðast hins vegar ekki njóta sömu velvildar þegar kemur að aðstöðumálum, eins og áratugalöng barátta Vélhjólaíþróttaklúbbsins sannar.
Núna í vor fylltist mælir þeirra sem telja sig stunda ábyrgan akstur á vélhjólum og af illri nauðsyn var stofnuð umhverfisnefnd á vegum VÍK. Þessi nefnd hefur verið starfandi nú í nokkra mánuði og á þessum stutta tíma hefur hún unnið að forvörnum og reynt að fá félagsmenn og aðra til að temja sér umhverfisvænan akstur. Einnig hefur verið rekinn harður áróður fyrir bættri umgengni á vef félagsins, motocross.is. Það er mat nefndarmanna að ávinningur af þessu starfi muni skila sér á nokkrum árum, en þangað til verður unnið jafnt og þétt að forvörnum og uppbyggilegum áróðri.
Ég vona að þessi grein sýni Ara Trausta að okkur stendur alls ekki á sama um einstök strákapör óupplýstra félaga okkar. Slóðar og einstígar sem við ökum á eru okkur jafnmikilvægir og gott samstarf við aðra útivistarhópa. Við bjóðum því Ara Trausta velkominn í hópinn.
Jakob Þór Guðbjartsson skrifar um vélhjólaíþróttamenn
Höfundur er nefndarmaður í umhverfisnefnd Vélhjólaíþróttaklúbbsins.