Fyrsta mótorhjólið er nú komið aftur til landsins. Hjól þetta er af svissneskri gerð er nefndist Motosacoche en var selt undir nafninu ELG í Danmörku. Þar fann Njáll Gunnlaugsson, höfundur nýrrar bókar um 100 ára sögu mótorhjólsins, hjólið á safni og fékk það lánað til landsins. „Leiða má líkum að því að þetta sé sama hjólið og Þorkell Clemenz flutti til landsins fyrir næstum 100 árum síðan“ segir Njáll. „Hjólið er af 1903 árgerð og var prufueintak hjá söluaðila þess í Danmörku. Þorkell hugðist selja hjólin einnig hérlendis undir ELG nafninu og flutti það inn 19. júní 1905, líklega með því að fá það lánað hjá umboðinu. Á hjólinu sem við fengum frá Tækniminjasafni Danmerkur er númeraplata sem á stendur að hjólið sé reynsluaksturseintak og þess vegna getur vel verið að hér sé um sama hjólið að ræða“ segir Njáll ennfremur. Hjólið verður til sýnis í Pennanum Hallarmúla fram að jólum en verður svo á sérstakri afmælissýningu á samgönguminjasafninu á Skógum um páskana.