Til að það sé alveg á hreinu, þá flokkar vefstjóri sig sem útivistarmann og náttúruunnanda. Í grein í Fréttablaðinu í dag er talað um gríðarmikla girðingarvinnu sem fer meðal annars fram á Reykjanesi þessa daganna. Það á að loka fé inn í sérstökum beitarhólfum, sem er gott og blessað. Öll önnur svæði verða svo friðuð. Ég skrapp um daginn í léttan hjólatúr á Reykjanesið á skráða og tryggða
hvítnúmera hjólinu mínu og fór um slóða sem hafa verið góðir og gildir á kortum frá miðri síðustu öld. Þar eru á köflum komnar girðingar sem skerast þvert yfir slóðann.
Þá hugsa kannski einhverjir „Það er verið að girða stór svæði fyrir rollum og auðvitað verður að fara yfir slóða og þá verða bara sett rollu rimlahlið eða önnur hlið á girðinguna á þeim stöðum.“ En það er alls ekki svo. Þegar komið er að girðingunni krossar hún slóðan og fer fimm metra yfir hann, liggur svo meðfram slóðanum og krossar hann aftur 20 metrum neðar. Svo hundrað metrum neðar er girðingin zikk zakk yfir veginn og langsum eftir honum. Þessi skipulagning er alveg með ólíkindum, sér í lagi þar sem þetta snýst ekki um skort á plássi. Þarna hefur verið plottað út á korti staðsetning girðingarinnar og Landgræðslan samþykkt fyrir sitt leiti, sveitafélagið fyrir sig og þá er þetta bara gert að því er virðist hugsunarlaust. Það sem ég er að reyna að fara með þessu er að slóðar og vegir á landinu eru til þess að nota þá, hvort sem er fyrir hestamenn, jeppamenn eða hjólamenn. Ég lít á slóða sem auðlind sem við verðum að vernda. Utanvegaakstur er með öllu óásættanlegur, en það að vera að tala um skemmdir sökum utanvegaaksturs og krossgirða svo fyrir þá slóða sem menn geta ferðast um kann ekki góðri lukku að stýra. Reynslan sýnir að það er ekki spurning, að þar sem þessu er svona háttað þá fara menn framhjá girðingunni og þá myndast nýr slóði. Þá spyr ég: Hvers vegna er fólk sem er að tala um spjöll sökum hesta, jeppa, og hjóla …. eða öllu heldur hjóla, jeppa og hesta ( það ku víst vera skárra að fræsa landið upp á hestum, þar sem það vantar í þá mótorinn ) að loka slóðum og ögra mönnum sem ekki aka eða ríða utanvegar til að gera það ?