Ónumið land

Kannski að maður sé endanlega farinn yfir um? Ég veit að
þetta kallast varla mótorhjól; 69 kíló, pínulítið kríli, heyrist varla í þessu
og rétt hreyfist úr sporunum. En þetta er staðreynd, það er búið að skipta út
enduro-hjólinu úr skúrnum fyrir GasGas-klifurhjól eða Trials-hjól eins og það er
líka kallað. Það sem var erfiðast við að taka þetta skref er að maður óttast að
verða fyrir vonbrigðum því ég er ekki viss um að þetta veiti neina útrás af
viti. Ætli ég eigi það ekki sameiginlegt með flestum Íslendingum sem hafa notað
torfæruhjólin til að fá löglega útrás fyrir frumhvatirnar. Ég meina, maður er
vanur stórum mótorum, miklum látum og enn meiri hraða en ekkert af þessu
fyrirfinnst í Trials. Hvað er ég þá að spá?


Klifurhjólin eru fislétt eins og sjá má.

Botna ekkert í sportinu ennþá

Ég hef rétt aðeins
prófað svona græju og þó ég botni ekkert í sportinu ennþá get ég ekki neitað því
að það er eitthvað í þessu sem togar. Við fyrstu sýn virðist þessi hljóðláti
vélhjólaballett snúast um jafnvægi, yfirvegun og nákvæmni. Hmm, ekki beint mínar
sterkustu hliðar. En nú er bara að stinga sér í djúpu laugina og sjá hvort maður
nær að halda sér á floti. Mér er sagt að til að ná tökum á þessu þurfi maður að
gleyma fyrri mótorhjólareynslu og byrja upp á nýtt. Þannig að nú einbeiti ég mér
bara að því að gleyma. Það á eftir að koma almennilega í ljós hvernig
GasGas-hjólið reynist, hvort hentug svæði fyrirfinnist fyrir íþróttina á Íslandi
og hvernig mér gengur að læra á hjólið. Þetta, ásamt öðrum hefðbundnari
torfæruhjólum, verður meðal efnis hér í Dagbók drullumallarans í sumar. Til þess
að fá svo einhverja mælistiku á hvernig mér hefur gengið að læra nýja siði ætla
ég í lok sumars að skella mér til Bretlands og taka þátt í einni Trials-keppni.
Ætli maður reyni ekki bara að raka af sér skeggið, fá sér húfu niður að augum og
peysu merkta 50 cent og svindla sér þannig inn í unglingaflokk 12-14 ára svo
maður eigi einhvern sjéns. Ekki ólíklegt að ég sé enn eina ferðina búinn að koma
mér í stórvandræði. Á þessum tímapunkti er því gaman að spyrja sig hvers vegna
þessi íþrótt sem er svo stór og vinsæl í löndunum í kringum okkur, hefur aldrei
náð neinni útbreiðslu hér á landi til þessa. Erum við bara svo miklu þroskaðri
ökumenn heldur en t.a.m. Bretarnir? Eða höfum við kannski verið að missa af
einhverju stórkostlegu í öll þessi ár? Kannski eitthvert svar fæðist í lok
sumars.

Það verður svo hasar hjá okkur á næstunni en þá ætla ég að smala saman
nokkrum þaulvönum og vel þekktum motocross- og enduro-ökumönnum og sjá hvernig
þeir spjara sig í reynsluakstri á nýju Trials-línunni frá GasGas og eftir því
sem okkur telst til verður það fyrsti reynsluakstur sinnar tegundar á Íslandi.
Gæti orðið ansi skrautlegt dæmi.

ÞK