2. umferð Íslandsmótsins í Motocross, Álfsnesi

Viðburður: 2. umferð íslandsmótsins í motocross
Staður & Stund: Álfsnes, 16.07.2005
Skipuleggjendur: Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK)
Þátttakendur: Um 70 keppendur í Meistaradeild, kvennaflokki, 85cc unglingaflokki og 125cc unglingaflokki
Veður: Hvasst, mikil rigning, 10°C
Braut: Moldar-/leirbraut m. starthliðum, stórum stökkpöllum og rithm section

Úrsitin eru hér
________________________________________

Undirbúningur, umgjörð og keppnisbraut:
VÍK fékk úthlutuðu svæði á Álfsnesi árið 2002 og hefur síðan þá byggt um stóra og mikla motocross keppnisbraut.  Starthlið eru í bratinni, stórir stökkpallar og rithm section.  Leir og sandur var keyrður í brautina fyrir mót, brautin yfirfarin með ýtu og þjöppuð.  Flaggarapallar eru við alla stærri pallana, áhorfendapallar við enda brautarinnar og áhorfendasvæði girt af.  Mikill metnaður var lagður í að hafa öflugt starfsfólk við keppnina og var námskeið haldið til að undirbúa flaggara fyrir daginn.  Keppnin var kynnt í fjölmiðlum og auglýst.

Um keppnina:
Unglingaflokkur og kvennaflokkur hófu skemmtilegan dag með miklum látum.  Í 85 rúmsentimetra flokki er mikill uppgangur, æ fleiri keppendur og margir mjög efnilegir framtíðarökumenn að stíga sín fyrstu spor – og stökkva sína fyrstu stökkpalla.  Freyr Torfason á Yamaha hefur hjólað frá unga aldri og varð Íslandsmeistari í þessum flokki í fyrra.  Stífar æfingar hans komu bersýnilega í ljós í keppninni, þar sem hann hafði mikla yfirburði í hraða og tækni, leiddi keppnina allan tímann og sigraði örugglega.  Kvennaflokkur var ekinn samhliða og sigraði Aníta Hauksdóttir á Kawasaki þann flokk.
125 rúmsentimetra flokkur bauð upp á mikla spennu.  Aron Ómarsson á KTM, sem hingað til hefur ekki sýnt nokkurt hik á sigurgöngu sinni, fékk mikla mótspyrnu frá Hjálmari Jónssyni í Honda liðinu.  Hjálmar, sem búsettur er á Egilsstöðum, hefur náð miklum framförum milli ára og sýndi svo sannarlega klærnar á Álfsnesi.  Hjálmar náði besta startinu og tók forystu.  Aron hékk á afturdekki hans allan tímann og virtist ekki aka hægar, en Hjálmar hélt forystunni á frábærum akstri í gegnum tæknikafla brautarinnar, nokkuð sem aðrir keppendur í flokknum áttu erfitt með að leika eftir.  Hjálmar sigraði flokkinn, þó með Aron á hælum sér. 
 
Rigndi eldi og brennisteini
Veðurguðirnir höfðu ekki fyrir því að blessa keppnina með sólargeislum.  Þvert á móti tónuðu þeir rokið með úrhellisrigningu sem átti heldur betur eftir að setja svip á keppnina.  Keppendur í meistaradeild fengu uppröðun í starthlið samkvæmt niðurstöðu tímatöku og litu fram yfir rennblauta leðjuna þegar 30 sekúndna spjaldinu var flaggað.  Starthliðin féllu skömmu eftir 5 sekúndna spjaldið og keppendur spóluðu sig áfram.  Þungt færið til viðbótar við leirfylltar kæliraufar hjólanna bræddi úr fjölmörgum vélum torfæruhjólanna og þeir sem gátu haldið áfram lágu ýmist kylliflatir ofan í drullunni eða börðust áfram brautina án þess að sjá fram á nef sér fyrir aurbleytu

Þrír erlendir meistarar meðal keppenda
Þrír erlendir keppendur mættu til leiks og settu mikið mark á keppnina, enda eru þeir allir í heimsklassa og taka þátt í heimsmeistaramótum.  Bretinn Ed Bradley á KTM og Yamaha ökumennirnir Peter Bergvall og Niklas Granström sem báðir koma frá Svíþjóð skipuðu sér strax í fremstu röð og skiptust á toppsætunum meðan á keppni stóð.  Íslensku þungaviktamennirnir Einar Sigurðarson á KTM og Ragnar Ingi Reynisson á Honda blönduðu sér í baráttuna en vélarbilun Einars og refsistig Ragnars settu sitt mark á úrslitin.  Niklas stóð uppi sem sigurvegar, Valdimar Þórðarson á Yamaha skaust upp í annað sætið og Kári Jónsson á TM, sem hóf keppnina með andlitið á kafi í drullupitti í fyrstu beygju náði heldur betur að hrista byltuna af sér og ók sig með látum upp í þriðja sætið.  

Myndir/Hákon Orri Ásgeirsson

{mosimage}
Hinn 15 ára Gunnlaugur Karlsson stóð sig afburðavel og þurfti ekki stórt hjól til að taka fimmta sætið
{mosimage}
Eftir byltur var mjög erfitt að ná hjólunum upp úr drullunni og koma sér af stað
{mosimage}
Gylfi Freyr Guðmundsson með allt í botni
{mosimage}
Árni Stefánsson á bólakafi – það er rétt olnboginn sem stendur upp úr
{mosimage}
Keppendur höfðu gaman af glímunni við leðjuna og eftir byltur var brosað í gegnum brún tárin til áhorfenda
{mosimage}
Magnús Ásmundsson lætur aurinn vaða yfir Einar Sigurðarson og fyllti hjálminn hans með sýnishorni úr brautinni
 
Frekari upplýsingar fyrir fjölmiðla:
Fjölmiðlar geta nálgast frekari upplýsingar um mótið, fleiri myndir frá mótinu, nánari upplýsingar um keppendur, keppnishald sumarsins og starfsemi Vélhjólaíþróttaklúbbsins hjá neðangreindum:
Bjarni Bærings
fjölmiðlafulltrúi VÍK,
Sími: 898-9090
Netfang: bb@medis.is
www.motocross.is


Skildu eftir svar