Ágæta keppnisfólk og keppnisstjórnendur,
Mig langar að staldra aðeins við eftir atburði helgarinnar og biðja ykkur að hugsa ykkar gang. Þetta er lítill hópur sem leggur stund á þessa íþrótt. Við sem komum að skipulagningu og stjórnun keppna lendum oft í erfiðri stöðu gagnvart einstaklingum sem við þurfum að taka á vegna brota á reglum og hegðunarvandamála í keppni. Oft á tíðum eru þetta því einstaklingar sem eru félagar okkar og oft liggur við vinaslitum. Það er því oft erfitt að beita reglunum og mig langar því að fara aðeins yfir það hvenær við teljum okkur eiga að beita þeim
og með hvaða hætti.
Ég hef margsinnis horft á vélhjólakeppnir erlendis og séð fræga erlenda ökumenn brjóta reglurnar í beinni án þess að það sé tekið á þeim. Hvers vegna ? Jú það er vegna þess að ólíkt flestum öðrum íþróttum þá er reglunum í vélhjólaíþróttum einungis beitt þegar um vítavert athæfi er að ræða. Þ.e. þegar “keppnisstjórn” telur að öðrum keppendum hafi stafað hætta af viðkomandi athæfi, óíþróttamannsleg hegðun hafir verið viðhöfð eða að keppendur brjóta reglurnar með þeim hætti að það hefur áhrif á úrslit keppninnar. Það er því ekki verið að dæma eftir reglubókstafnum líkt og í öðrum íþróttum heldur meira eftir tilfinningu lokaðs hóps sem hefur verið valinn til að dæma keppnina. Reglurnar eru því einungis notaðar til hliðsjónar og ekki til þess að fallnar að það sé farið eftir bókstafnum.
Það sama á við um kærumál. Keppendur og keppnislið leggja ekki fram kærur nema að viðkomandi keppandi hafi lent í atviki þar sem “verulega” var brotið á honum eða öryggi hans stofnað í hættu. Og þrátt fyrir það þá er alltaf haft til hliðsjónar að það séu meiri líkur en minni á því að kærum sé hafnað og að viðkomandi tapi málinu. Hvers vegna ? Við viljum ekki fá kærur nema að rík ástæða sé að baki.
Í ljósi ofangreinds má öllum vera ljóst að það er erfitt að vera í keppnisstjórn og það er ekki auðvelt að finna fólk í þetta starf og því miður gera dómarar mistök eins og annað fólk. En það eru 4-5 manns í keppnisstjórn og þetta fólk á að geta komist að lýðræðislegri niðurstöðu um vafaatriði auk þess sem það eru flaggarar þeim til halds og trausts.
Markmið mitt með þessum skrifum er því að beina þeim tilmælum til ykkar keppenda að þið slakið aðeins á í dómhörku ykkar á einstökum atvikum sem upp koma og látið keppnisstjórn eftir að meta það hvort drengilega sé keppt og að sjá til þess að besti maðurinn vinni á réttum forsendum.
Einnig vil ég beina þeim tilmælum til þeirra sem taka að sér embætti keppnisstjóra að þeir taki sér tíma til þess að fara yfir einstök mál, kalli saman keppnisstjórn og taki lýðræðislega ákvörðun um það hvernig beri að taka á einstökum málum.
Það er sem betur fer “ekki” þannig í okkar ágæta sporti að ef það stendur ekki í reglunum að það sé leyft að þá sé það bannað.
May the best man win.
Kveðja Aron Reynisson
Form. VÍSÍ