Greinar úr Mogganum

Síðustu daga hafa 2 greinar birst í Mogganum. Annars vegar frá Kristjáni B Jónassyni bókmenntafræðing og hinns vegar Einari Sverrissyni umhverfisnefnd VÍK. Kristjáni er greinilega í nöp við samninginn sem gerður var um Bolöldusvæðið og Einar kemur með okkar hlið á málinu.

Kristján B. Jónasson fjallar um akstur torfæruhjóla: "…og er ætlunin að leggja Draugahlíðar og Jósefsdal undir "skipulagðan akstur" vélhjólamanna næstu 15 árin í það minnsta."

 
HERLIST þrýstihópa er ekki margslungin en að sama skapi er árangurinn vís. Nokkrir stafnbúar nýrra lífshátta gera kúnstir sínar óáreittir um skeið og án vitundar annarra en sinna nánustu uns þeim lýstur saman við samfélagið óvart og undirbúningslaust. Um leið upphefst sónninn um "aðstöðuleysi" og "skilningsleysi stjórnvalda". Maður vorkennir oft stjórnvöldum sem líkt og hetjur í grískum harmleik verða að ganga á hólm við örlög sem einhverjum gólkórnum hefur tekist að þvæla í fang þeim. Það er úr vöndu að ráða og engin ráð eru góð: því oft hrapað að flótvirkri lausn, til bölvunar fyrir alla.
Glæsilegt dæmi um árangur á þessu sviði er áróðursherferð torfæruhjólamanna í vor og sumar. Árum saman hefur útivistarfólki gramist að sjá aðfarir þessa ógæfufólks sem í leiðindum sínum spólar upp brekkur og hóla hér í fjöllunum í kringum Reykjavík. Þegar vakið var máls á þessum glæpaverkum nú síðla vetrar stóð ekki á svörunum: Aðstöðuleysið sem stjórnvöld höfðu ekki leyst úr var stóri skandallinn. Mikil barátta hófst á síðum staðarblaðanna og sýnist þar sitt hverjum en ef marka má ritstjórnargrein Morgunblaðsins nú síðla í júlí hefur stóra torfærumálið verið til lykta leitt. Nú á að fórna einum dularfyllsta reit hér í Reykjanesskagafjöllunum Jósefsdal fyrir það sem nefnt er "skipulagður akstur". Þetta er náttúrlega grábroslegt öfugmæli því vélhjólamenn hafa notað ekki aðeins Jósefsdal, heldur alla hóla og hæðir í nágrenninu, til afskaplega óskipulagðs aksturs löng undangengin ár. Það heyrir til undantekninga ef maður er þarna á ferð fótgangandi að sjá ekki einn af þessum aumingjans aðstöðuleysingjum tæta upp á Sauðdalahnúka eða gera hetjulega tilraun til að vega sig upp á Vífilfell úr dalskjafti Jósefsdals. Í vesturhlíðum Vífilsfells hefur einnig farið fram óskipulögð landmótun. Þar er nú myndarlegur slóði sem vélhjólamenn hafa spænt upp á ferðum sínum, sjálfsagt í gremjukasti yfir að hafa ekki fengið neina aðstöðu frá hinu opinbera. Nú í vor gat ég skemmt mér þar við að fylgjast lengi með tveimur hjálmklæddum mönnum gera ítrekaðar tilraunir til að spóla sig upp úr gilslakka, renna niður, spóla aftur upp… út í hið óendanlega. Ekki þarf að taka fram að margvísleg úrræði önnur eru til fyrir fólk með áráttuhegðun af þessu tagi.

En sum sé, sveitarfélagið Ölfushreppur hefur að sögn Morgunblaðsins undirritað samstarfssamning við vélahjólamenn undir blessun umhverfisráðherra og Rolling Stones-aðdáanda númer eitt, sýslumanns Árnessýslu, og er ætlunin að leggja Draugahlíðar og Jósefsdal undir "skipulagðan akstur" vélhjólamanna næstu 15 árin í það minnsta. Torfærumönnum tókst að komast upp með að spóla og spæna eins og þá lysti á sínum óskráðu hjólum árum saman í trássi við lög og góða siði og eru nú verðlaunaðir fyrir lögbrotin með því að útsvarsgreiðendur í Þorlákshöfn púkka undir þá akbraut yst við endimörk sveitarfélagsins. Hundarökfræðin er þessi: Það er hvort eð er búið að eyðileggja landið. Ölfusingum er reyndar vorkunn því það eru þéttbýlisbúarnir sem teygja nú arma borgarinnar sífellt lengra inn í óbyggðirnar hér í kring. Bygging Hellisheiðarvirkjunar, vegalagning og námugröftur, borholur Hitaveitu Suðurnesja, uppbygging skíðasvæða í snjóleysinu, ágangur vélhjóla auk "villtra drauma" um að bora holu inn í Þríhnúk eða göng í gegnum Hengilinn eru allt skýr dæmi um hvernig búið er að skilgreina allt umhverfi höfuðborgarsvæðisins sem leikvöll fyrir athafnafólk, algerlega óháð því hvort viðkvæm náttúran þoli allt þetta rask. Andspænis þessari athafnaþrá býðst eiginlegu útivistarfólki sá kostur einn að drífa sig upp á hálendi til fundar við næsta stíflulón. Þar við mishæðótt vatnsborðið má svo hugleiða hvernig mannskepnan sé eiginlega innréttuð. Því stundum flögrar það að manni að við hötum einfaldlega náttúruna. Aðrar skýringar eru einfaldlega of langsóttar.

Jósefsdalur er að vísu eyðilegur en þeir gömlu töldu sig skilja að þetta stórhrífandi "ekkert" væri þarna ekki að ástæðulausu. Sú sögn hefur geymst að Jósef hafi verið blótgjarn listasmiður sem bölvaði undan sér bænum og gróandanum svo eftir stóð sviðin jörð. Um þetta orti Grímur Thomsen gott kvæði sem margir þekkja og segir þar: "sjálf hjá dalnum sauðkind sneiðir / svo er hann gjörsamlega í eyði". Þessu vilja Ölfusingar nú breyta. Eina vonin er að það rætist sem Grímur gamli sagði líka að þessi slóð sé svo óhrein að illir straumar blótvargsins Jósefs flæmi á brott hvern sem þar kemur. Vonandi gildir það líka um torfæruvarginn.

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um útivist.

Einar Sverrisson svarar grein Kristjáns B. Jónssonar: "Engin ein leið til útiveru er öðrum fremri og vissulega ber öllum að leggja sitt af mörkum svo að næsti útivistarmaður njóti hins sama og sá sem á undan fór."

  KRISTJÁNI B. Jónssyni er í nöp við notendur torfæruhjóla og honum gremst nýundirritaður afnotasamningur Vélhjólaíþróttaklúbbsins (VÍK) og Landssambands vélsleðamanna við sveitarfélagið Ölfus. Þetta dylst ekki þeim sem lesa skrif hans í Morgunblaðinu föstudaginn 12. ágúst.
Umræddur samningur snýr að afnotum landsvæðisins við Bolöldusvæði og Jósepsdal og þrátt fyrir augljósa gremju Kristjáns þá markar þessi samningur ákveðin tímamót í baráttu vélhjólaíþróttamanna sem staðið hefur í hart nær þrjá áratugi.

Kristján hefur afbragðsgóðan ritstíl og hann fetar sig gegnum skrifin með góðri uppbyggingu á grein sinni og styður sig áleiðis við skrautlegar uppnefningar á þeim sem tengjast málefninu. Í niðurlagi greinar sinnar um "glæpaverk" "ógæfufólksins" eins og hann kýs að orða það skín í aðdáun Kristjáns á þjóðsögum og speki gamalla manna. Kemur það ekki á óvart þar sem hér fer maður sem virðist láta skrif sín stjórnast af fornfálegum hugsunarhætti í bland við takmarkað umburðarlyndi og þröngsýni. Þannig séð gæti lestur greinarinnar verið hin ágætasta skemmtun ef ekki skini í svo áberandi og sérdeilis óskemmtilega vanþekkingu Kristjáns á málefninu sem hann þó kýs að skrifa um í blöðin.

Auðvitað hata fæstir náttúruna eins og flögrar að Kristjáni. Það eru hins vegar svo margar mismunandi leiðir til að njóta hennar og engin ein leið sem hentar öllum. Sumir vilja læðast um landið í hljóðri andakt, íklæddir stuttbuxum og gönguskóm. Öðrum líkar betur að berast mót fjöllum háum á hestbaki og enn aðrir kjósa helst að stunda sína útivist og hreyfingu með því að svífa um á hvellu vélknúnu ökutæki. Margir einstaklingar leyfa sér jafnvel þann munað að njóta landsins og náttúrunnar á alla þessa máta allt eftir því hvernig stund og staður kallar til þeirra. Allt þetta útivistarfólk stendur frammi fyrir því að mæta samferðamönnum sínum og ekki síður náttúrunni sjálfri með tilhlýðilegri virðingu og umburðarlyndi. Engin ein leið til útiveru er öðrum fremri og vissulega ber öllum að leggja sitt af mörkum svo næsti útivistarmaður njóti hins sama og sá sem á undan fór. Í öllum hópum fyrirfinnast því miður einstaklingar sem af einhverjum ástæðum átta sig ekki á þessu og sverta þá gjarnan heildina með vanhugsuðum athöfnum sínum. Sem betur fer sjá samt flestir í gegnum þetta og dæma ekki heilu ávaxtafarmana út frá einu skemmdu epli.

Smíðuð hafa verið lög fyrir þennan málaflokk en því miður misst marks að mörgu leyti þar eð þau endurspegla ekki hina raunverulegu þörf. Lausnin er ekki að banna einfaldlega allt nema lauflétt tipl um landið – sem að mörgu leyti er núverandi staða og hefur svo sannarlega ekki gefið góða raun. Að sjálfsögðu kann ekki heldur góðri lukku að stýra að leyfa hamslausan átroðning tví- eða fjórhjóla né heldur tví- eða fjórfættra. Miklu frekar þarf að hafa skipulag á notkun landsins í samræmi við mismunandi þarfir þeirra sem stunda útivist. Fyrir þessu er góð reynsla sem sjá má víða. Áberandi gönguslóðir í hlíðum fjalla eins og Vífilfells eða Esjunnar eru ágæt dæmi um skipulagða notkun náttúrunnar. Svo ekki sé nú minnst á hestaslóðir meðfram, undir og yfir alla helstu þjóðvegi landsins og víðar. Flestir sætta sig við slíkt skipulag og yfirvöld, gjarnan í samvinnu við grasrótina, hafa oftar en ekki komið myndarlega að þessum málum. Hvernig væri annars umhorfs hjá okkur ef yfirvöld hefðu ekki á einhverjum tímapunkti komið til móts við þann fjölda sem stundar reiðmennsku, hlaup, göngur eða golf? Er ekki líklegt að við stæðum nú frammi fyrir daglegum slysum á skokkurum og hestamönnum sem sitt á hvað yrðu fyrir bílum eða golfkúlum á milli þess sem golfáhugamenn væru fluttir á sjúkrahús eftir að hafa runnið í hrossataði.

Lausnin hlýtur að liggja í því að yfirvöld ásamt grasrótinni vinni í sameiningu að því að koma upp skipulagðri aðstöðu í takt við þörfina.

Sem átak í þessu hefur VÍK barist fyrir því að fá til afnota svæði í nágrenni höfuðborgarinnar svo að beina megi áhugamönnum um útivist og vélhjól á til þess ætluð svæði. Þessi barátta hefur staðið í bráðum þrjá áratugi og á meðan árangurinn hefur látið á sér standa hefur áhugamönnum um þessa tegund útivistar fjölgað verulega. Undanfarin þrjú ár raunar svo mikið að til vandræða hefur horft.

Samningurinn sem Kristján agnúast útí og hann vill meina að sé ávöxtur freklegrar áróðursherferðar einhvers "gólkórs" með "áráttuhegðun" er í raun ein markverðasta framkvæmd yfirvalda í baráttunni fyrir verndun náttúrunnar í langan tíma. Hér sýnir Sveitarfélagið Ölfus í verki mikla framsýni. Enginn, sem til þessa málaflokks þekkir, er í vafa um að þessi stórmannlegi gjörningur sveitarstjórnarfólks í Ölfusi verður til þess að skipulag kemst á útivist vélhjólaáhugamanna í náinni framtíð. Vélhjólaíþróttafólk á höfuðborgarsvæðinu og víðar – jafnt karlar, konur og börn fagna þessum áfanga og munu vafalítið þakka fyrir sig með ábyrgum akstri á svæðinu.

Höfundur er í umhverfisnefnd VÍK, náttúruunnandi og áhugamaður um vélhjólaakstur.

Skildu eftir svar