28. Dakar rallinu lauk í dag með hópakstri án tímatöku á síðustu leiðinni, en alls voru 93 hjól, 66 bílar og 35 trukkar sem kláruðu. Ástæðan fyrir því að ekki var keppt á síðustu sérleiðinni var að í gær hljóp 12 ára strákur fyrir einn aðstoðar trukkinn og dó. Þetta var þriðja banaslysið í tengslum við þessa 28. keppni og hafa alls 53 látist í tengslum við þessa keppni frá 1979. Þessi tvö síðustu slys má rekja til þess að áhorfendur fara ekki að
tilmælum lögreglu við keppnisvegina og hlaupa ítrekað yfir keppnisveginn á meðan keppni stendur. Keppnisstjórn setti hámarkshraða á keppendur og lét útbúa dreifibréf með teiknuðum myndum (það kann enginn að lesa þarna)hvernig áhorfendur ættu að haga sér, en allt kom fyrir ekki. Þess má geta að áhorfendur eru gífulega margir og oftar en ekki eru allir þorpsbúar í vegkantinum þegar keppnin fer framhjá og í gegnum þorpin.
Í mótorhjólaflokki sigraði Mac Coma frá Spáni á KTM nokkuð örugglega. Þetta var fyrsti sigur M. Coma í Dakar og 6. sigur KTM í Dakar. Með þessu komst KTM upp að hlið BMW með 6 sigra, en Yamaha á metið með 9 sigra alls. Ótvíræður sigurvegari er sá sem var í 2. sæti Frakkinn Cyril Desperes sem ók hálfa keppnina viðbeinsbrotinn og var einum klukkutíma og 13 mín á eftir Coma. Tími Coma hefði dugað honum til að vera í 3. sæti í heildina, en aðeins tveir bílar voru með betri tíma en hann. Þess má geta að leyfilegur hámarkshraði mótorhjólanna var 160km á kl. og ef hjól fóru hraðar fengu þeir refsingu, en ekki var neinn hámarkshraði á bílunum í þessari keppni.
Kvennaflokkinn vann hin fertuga Patrica Watson-Miller á KTM EXE525, en hún var í 67. sæti í heildina, en tvær konur kláruðu keppnina.
Í bílaflokki sigraði skíðakappinn Luc Alphand á Mitsubishi og var þetta 11. sigur Mitsubishi í Dakar keppninni.
Kveðja
Hjörtur L Jónsson