KYNNING Á AKSTURSÍÞRÓTTAFÉLAGI HAFNARFJARÐAR.
Inngangur.
Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar (AÍH) kt. 611002-2030 var formlega stofnað í október 2002. Í félaginu sameinast þrjú akstursíþróttafélög, öll með heimilisfang og starfsemi í Hafnarfirði. Þau voru:
Rallýkross-klúbburinn kt. 480191-1539
Mótorsportklúbbur Íslands kt. 480499-2049
Vélhjólaíþróttafélag Hafnarfjarðar kt. 691200-3450
Frá stofnun félagsins hefur verið á stefnuskrá þess að tengjast með einum eða öðrum hætti íþróttahreyfingunni og nú þegar verið lögð fram umsókn um inngöngu í ÍBH.
Akstursíþróttir innan AÍH.
Það félagsstarf sem á sér stað innan AÍH er einkum tengt Rallýcross, Go-kart, Microcross, Motocross, íscross og Enduro. Æfinga og keppnishald í Rallýcross og Go-kart er í dag á keppnisbraut félagsins við Krýsuvíkurveg.
Við viljum hinsvegar nota þetta tækifæri og kynna vélhjólaíþróttir sérstaklega þar sem við teljum að þær þarfnast betri kynningar. Akstursíþróttir á vélhjólum og þá einkum svokallað Motocross, íscross og Enduro eru í miklum uppgangi í Hafnarfirði. Þau vélhjól sem þarf til þess að iðka þessar íþróttir hafa lækkað talsvert í verði, og má segja að það sé á færi hvers manns að eignast slíkt ökutæki í dag. Það er mikill áhugi fyrir þessum íþróttum hér í bæ og hefur þróunin orðið sú að hér er hlutfallslega mest vélhjólaeign á öllu landinu, sé tekið mið af höfðatölu. Þessari uppbyggingu á íþróttinni í bæjarfélaginu ber helst að þakka bæjaryfirvöldum, sem hafa stutt dyggilega við bakið á henni með rekstri félagsmiðstöðvarinnar Músík og Mótor.
Microcross.
Hvað er Microcross ?
Microcross er í raun motocross á litlum mótorhjólum ætluðum börnum á aldrinum 5-12 ára. Þessi hjól eru með vélarrúmmál á bilinu 50-80 cc og er hægt að stilla hversu miklu afli vélarnar skila. Þannig er hægt að stilla hraðanum í hóf.
Ekið er á sérútbúnum brautum sem eru sérstaklega ætlaðar þessum aldurshóp. Brautin er lögð í sandi, mold eða öðrum lausum jarðvegi, og samanstendur af mörgum beygjum til þess að draga úr hraðanum. Litlir stökkpallar eru lagðir á beinu kaflana. Einnig er reynt að hafa brautirnar eins opnar og hægt er svo að foreldrar eigi auðvelt með að grípa inn í ef eitthvað fer aflaga.
Hversvegna leggur AÍH rækt við Microcross ?
Eitt af meginmarkmiðum AÍH er að leggja stund á félagsstarf fyrir börn. Það er skoðun félagsmanna að börn eigi að hafa kost á því að prófa sem flestar íþróttagreinar, og taka þátt í þeim sem leik en ekki keppni. Með þessum hætti byggjum við einnig upp íþróttina á eðlilegan hátt. Það er okkar skoðun að nýliðun þurfi að eiga sér stað fyrst og fremst í gegnum Microcross. Það er mun heilbrigðara og áhættuminna að einstaklingarnir alist upp með íþróttinni í stað þess að koma inn í hana á unglings eða gamals aldri.
Talsvert hefur verið flutt inn af barnahjólum ætluðum til notkunar í Microcross síðastliðin ár. Þessi hjól eru flest í fullri notkun og eru foreldrar að “pukrast” með börnunum sínum upp í sumarbústöðum eða í malargryfjum í nágrenni byggðar. Akstursíþróttafélög hafa ekki gert neitt til þess að skipuleggja eða koma á félagsstarfi fyrir þennan hóp. Þessu vill AÍH breyta með því að skipuleggja æfingar í Microcross og skapa aðstöðu fyrir greinina.
Við viljum taka það fram að þær öryggiskröfur sem gerðar eru í Microcross hvað varðar búnað og reglur eru mjög strangar, og leyfum við okkur að fullyrða að mun hættulegra er t.d. fyrir börn að hjóla um á reiðhjóli í umferð en að aka Microcrosshjóli, sé farið eftir þessum reglum.
MOTOCROSS
Hvað er Motocross ?
Motocross er keppni á sérsmíðuðum vélhjólum með 80-650 cc vélum á lokaðri braut með lausum jarðvegi td. grasi, sandi eða mold. Brautin samanstendur af beygjum og stökkpöllum, með stuttum beinum köflum á milli. Keppt er í mismunandi flokkum eftir aldri og vélarstærð.
Margir halda að keppni á vélhjólum sé eingöngu falin í því að setjast á bak og gefa allt í botn. Það á alls ekki við um íþrótt eins og Motocross sem er mjög krefjandi og þarf ökumaðurinn að hafa fullkomið vald á líkama sínum jafnt sem vélhjólinu. Auk þess þarf ökumaðurinn að hafa mikið úthald og styrk, og hefur oft verið sagt að Motocross sé ein af erfiðustu íþóttagreinum heims. Það tekur keppendur mörg ár að byggja upp líkama sinn til þess að ná árangri í þessari íþrótt og leggja flestir stund á hlaup, lyftingar, hjólreiðar eða aðra líkamsrækt árið um kring, ásamt æfingum á mótorhjólum.
Á Íslandi er þetta sú grein sem hefur átt hvað mestum vinsældum að fagna í gegnum tíðina og hefur verið keppt reglulega í þessari íþrótt til Íslandsmeistara síðan 1978.
Hvers vegna leggur AÍH rækt við Motocross ?
Eins og áður hefur komið fram er Motocross íþrótt sem krefst mikils úthalds og styrks. Þeir einstaklingar sem heillast af íþróttinni leggja án undantekninga stund á aðrar íþróttir ásamt almennu, heilbrigðu líferni til þess að halda sér í formi. Það er trú okkar að öllum sé til góðs að leggja stund á þessa íþrótt, og það eigi að gera henni jafnt hátt undir höfði eins og öðrum íþróttagreinum sem í boði eru á Íslandi. Skapa verður varanlega aðstöðu til þess að íþróttin nái að þroskast eðlilega, og einstaklingar sem hana stunda fái að njóta sín.
Undanfarna tvo áratugi hefur verið byggð upp aðstaða og keppt á fjórtán mismunandi svæðum í nágrenni Reykjavíkur. Öll þessi svæði hafa verið til bráðabirgða og hafa þau akstursíþróttafélög sem byggt hafa upp þessa aðstöðu, glatað henni aftur vegna ýmissa orsaka. Það má með sanni segja að hér á landi sé það einungis í Vestmannaeyjum sem svæðismál eru í viðunandi horfi og er öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Það er stefna AÍH að byggja varanlega Motocrossbraut fyrir félagsmenn í nágrenni Hafnarfjarðar og skipuleggja þar æfingar og keppnishald fyrir þessa íþrótt.
Enduro.
Hvað er Enduro ?
Enduro er Spánskt orð og þýðir úthald. Orðið vísar til þess hvað keppnin gengur út á, þ.e. ekið er í langan tíma í einu. Lögð er braut á lokuðu, afmörkuðu svæði til þess að valda sem minnstum spjöllum á náttúru. Þar er lögð leið sem er erfið yfirferðar og reynir gífurlega á úthald keppenda. Þessi íþrótt hefur átt ört vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi undanfarin ár og voru keppendur í henni árið 2002 vel á annað hundrað. Enduro er því orðin fjölmennasta akstursíþrótt á Íslandi.
Þau vélhjól sem notuð eru til aksturs í Enduro svipar að mörgu leiti til þeirra sem notuð eru í Motocross. Þau eru hinsvegar skráð og með ljósabúnaði þar sem þeim er oft ekið í umferð á ferjuleiðum og til og frá æfingu. Á Íslandi hefur verið keppt til Íslandsmeistara í Enduro síðan 1997 og er keppnisgreinin sem slík rétt að slíta barnsskónum.
Hvers vegna leggur AÍH rækt við Enduro ?
Keppni í Enduro er sjálfsagt framhald af farsælum íþróttaferli í Motocross. Meðalaldur keppenda í þessari grein eru oftast hærri en þeirra sem keppa í Motocross. Einnig má kalla Enduro almenningsíþrótt vélhjólaíþróttanna þar sem hún gerir ekki eins miklar kröfur til leikni ökumannsins eins og Motocross. Hinsvegar þurfa keppendur að vera í sérstaklega góðu formi ásamt því að hafa töluverðri færni í meðferð vélhjóla til þess að ná árangri. Greinin sem slík stuðlar einnig að betri umgengni um landið og er það stefna félagsins að ná með þessum hætti til sem flestra ökumanna torfærumótorhjóla og að miðla af reynslu og þekkingu á sviði umhverfismála til þeirra í gegnum keppnishald og æfingar.
Íscross.
Hvað er Íscross ?
Íscross er keppni í ísakstri á lokaðri braut. Hægt er að nota sömu vélhjól og notuð eru í þeim greinum sem lýst hefur verið hér að framan. Eru þau þá einungis útbúin með sérstökum nagladekkjum sem ætluð eru til aksturs á ís. Keppt er í riðlum með útsláttarfyrirkomulagi.
Hvers vegna leggur AÍH rækt við Íscross ?
AÍH eða áður VÍH hefur lagt talsverða rækt við íscross undanfarin ár. Aðstæður í Hafnarfirði eru allar hinar ákjósanlegustu og er Hvaleyrarvatn einn hentugasti staðurinn í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þó hafa Reykvíkingar stundað þessa íþrótt á Leirtjörn við Úlfarsfell með góðum árangri og hafa verið haldnar keppnir á báðum stöðum auk Mývatns. Ísakstur er að okkar mati dæmi um það hvernig vel heppnað félagsstarf og skipulagt afmarkað svæði geta stuðlað að bættri umgengi um landið og stuðlað að minni umferð torfæruhjóla í þéttbýli og utan vega. Síðan við hófum þetta félagsstarf hefur átt sér stað markviss þróun í þá átt að við höfum náð betur til þess hóps sem ekur torfæruhjólum. Okkur hefur tekist að miðla upplýsingum og fræða þá yngri um það hvað er æskilegt og hvað ekki. Við leyfum okkur því að fullyrða að án ísakstursins hefði þetta aldrei orðið að veruleika.
Það er einnig markmið félagsins að eiga sem nánast samstarf við Músík og mótor, félagsmiðstöð Hafnarfjarðarbæjar og samnýta með henni alla þá aðstöðu sem félagið mun byggja upp. Einnig er ætlunin að miðla sem mestu af þekkingu félagsmanna til þeirra ungmenna sem taka þátt í félagsstarfi Músík og mótor. Með þessum hætti er ætlunin að byggja upp heilbrigða umgjörð um notkun vélhjóla sem íþróttaökutækis og kenna félagsmönnum að bera virðingu fyrir þeim sem slíkum, ásamt notkun þeirra jafnt innan bæjarfélagsins sem utan.
Fyrir hönd stjórnar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar.
Virðingarfyllst
Aron Reynisson
Formaður