Sælir félagar, undanfarnar vikur hefur mikið gengið á – margir frábærir hlutir hafa gerst á skömmum tíma um leið og neikvæð umræða hefur einkennt alla umfjöllun um sportið. Á meðan hefur frábær uppbygging átt sér í stað Bolaöldu sem þörf er að segja frá hér og nú.
Meðfylgjandi kort sýnir net enduroslóða sem lagt hefur verið á Bolaöldusvæðinu undanfarnar vikur. Kristján Grétarsson og Birgir Már Georgsson hafa borið þungann af þessu verki ásamt mörgum öðrum sem hafa hjálpað til við lagninguna. Þarna er kominn frábær grunnur að slóðaneti sem við getum nýtt til framtíðar. Þetta slóðanet hefur nú verið opnað fyrir öllum.
Við biðjum menn þó að fara varlega og keyra hvergi nema í þessum slóðum. Það er ótrúlega mikilvægt að sýna fram á að við GETUM HALDIÐ OKKUR VIÐ MERKTA SLÓÐA!!! Aðeins þannig getum við búist við því að fá fleiri svæði eða slóða til afnota. Klapp fyrir Krissa og Bigga!
Aðsókn að Bolaöldusvæðinu hefur verið mjög góð og greinilegt að öll sú vinna sem Hjörtur leggur að sér er að skila árangri. Mikil notkun slítur öllum brautum gríðarlega og án starfsmanns væri hreinlega ekki hægt að halda svæðinu jafn góðu og það er þrátt fyrir allan aksturinn sem þarna fer fram. Framkvæmdir hafa gengið mjög hratt í vor – ýtuvinna við motocrossbrautina hófst 21. apríl og brautin var opnuð um miðjan maí sem hlýtur að teljast mjög gott. Enn er heilmikið eftir að lagfæra s.s. auka halla og styrkja batta í beygjum, jafna svæðin á milli brautanna og sá fræi í þau ( ath. að hjóla ekki þar nema á sér styttingarleiðum) auk þess sem á næstunni getum við vonandi fengið beltagröfu með sigtiskóflu til hreinsa grjót úr brautinni á grófustu köflunum. Fyrst þurfum við þó að vera orðnir sáttir við endanlega legu brautarinnar. Reynir Jóns og Gunni Þór eru komnir í málið ásamt fleirum og halda jarðýtunum við efnið næstu dagana.
Fjöldi fyrirtækja hefur lagt okkur lið á síðustu vikum; Fyrst ber þar að nefna að Orkuveita Reykjavíkur mun styðja uppbygginguna um 1.000.000 kr. í ár, Pokasjóður veitti okkur nýverið 500.000 kr. styrk, Byko hefur gefið góða afslætti af efniskaupum, Jarðvélar hafa lánað okkur jarðýtu nánast endurgjaldslaust, Bolöldunámumenn hafa aðstoðað okkur dyggilega með sínum tækjum, JHM-Sport lánaði okkur bíl undir Hjört, Landsvirkjun hefur ákveðið að lána okkur vinnuhóp til að rækta upp svæðið og samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs hefur hug á að gera slíkt hið sama. Auk allra þessara hefur fjöldi fyrirtækja hefur aðstoðað okkur og kunnum við þeim öllum virkilega góðar þakkir fyrir.
Við þessa vinnu höfum einnig notað aðstoðar fjölda manna; við höfum fengið góð kjör hjá þeim ýtumönnum sem hafa aðstoðað okkur, fjöldi félagsmanna hefur hjálpað til auk þess sem stjórnar- og nefndarmenn í VÍK hafa eytt óteljandi stundum við að koma svæðinu upp úr jörðinni. Þá hefur Hjörtur hreinlega verið óstöðvandi við hvað sem er og með ólíkindum hvað hann kemur miklu í verk (hver annar gæti húkkað far með þyrlu þegar mann vantar loftmyndir af svæðinu? 😉 – legg til að menn klappi honum (og hjálparmanninum Ólafi Hjartarsyni) hressilega á öxlina næst þegar þeir rekast á hann!
Tekjur af brautinni og styrkir fyrirtækja hafa gert okkur kleift að fjárfesta í 4×4 traktor með ámoksturtækjum en hann hefur nýst okkur frábærlega. Með honum höfum við getað haldið brautinni við og mokað betri efni í stökkpalla og margt fleira. Salerni og geymslugámur er komið á staðinn og nýtast vel. Við höfum góðar vonir um að fá hús á svæðið fljótlega þannig að getum fengið afdrep til að skipta um föt um leið verður sett upp rotþró. Á næstu dögum verður byrjað að bora eftir vatni og þá opnast möguleikar á vökva brautina í þurrkatíð og skola af hjólunum o.m.fl.
Umhverfisnefndin hefur ekki setið auðum höndum. Á næstunni fer af stað kynningarátak gegn utanvegaakstri í samvinnu við Ferðaklúbbinn 4×4, Umhverfisstofnun og Landgræðsluna. Það sem þarf er að við kveikjum allir á perunni og höldum okkur á þeim slóðum og svæðum sem við megum vera á og hvergi annars staðar. Forsvarsmenn umboðanna hafa hist og rætt hvernig þeir geta tekið höndum saman í því að bæta akstursmenningu hjólamanna. Ekki veitir af – boltinn er farinn að rúlla gegn okkur og það erum bara við sem getum stoppað hann og farið að rúlla honum til baka!
Við erum búnir að óska eftir viðtali við Umhverfisráðherra, Morgunblaðið mun á næstunni gera grein fyrir okkar hlið á málunum, kynna svæðið við Bolaöldu og gera uppbyggingunni og kraftinum í félaginu góð skil.
Við verðum að sýna fram á við getum byggt upp og rekið svona svæði með góðum árangri – fært utanvegaakstur inn á skemmtilega slóða sem er vel við haldið og svæði sem býður upp á góða aðstöðu og þjónustu. En til þess að svo verði áfram þarf aukinn skilning ráðamanna, fjármagn frá ríki, borg og öðrum sveitarfélögum og vilja til þess að gera eitthvað í málunum með okkur. Undanfarin ár hefur allt frumkvæði og ábendingar um lausnir komið úr okkar röðum. Það hefur ekki svo mikið sem einn embættismaður hringt og spurt hvernig við gætum hjálpast að við að draga úr utanvegaakstri. Þeir hafa hins vegar fengið fjölda ábendinga frá okkur þar sem við óskum eftir aðstoð við slíkt hið sama – án þess að nokkuð gerist. Það stendur hins vegar ekki á þeim að benda þegar þarf að finna blóraböggul eins og gerðist á dögunum. Við svörum ekki fyrir utanvegaakstur – hann verður ekki liðinn – há innflutningsgjöld í ríkissjóð skapa okkur engann rétt en við viljum hins vegar njóta sannmælis, punktur.
Sem sagt ýmislegt í gangi í stóru félagi. Skemmtið ykkur vel, borgið félags- og brautargjöldin og sýnum þeim sem gagnrýna okkur mest að við getum allt sem við ætlum okkur – stöðvað utanvegaakstur, byggt upp topp aksturssvæði og náð baráttumálum okkar í gegn.
Kveðja,
Hrafnkell Sigtryggsson
formaður
Ps. hafiði hjólin ykkar tryggð og skráð, allt annað er fásinna – húrra fyrir KKA að ríða á vaðið!