Mótorhjólamaður hefur verið dæmdur í 25 þúsund króna sekt fyrir utanvegaakstur í Helgafellssveit í fyrravor en hann var sakfelldur fyrir brot á náttúruverndarlögum með athæfi sínu. Ók hann í suðurhlíð Seljafells og niður hlíðina að vestanverðu og mynduðust hjólför í hraunmöl sem er lítillega gróin mosa og grasi.
Ökumaðurinn mætti ekki fyrir dóminn og var fjarvist hans tekin sem játning, enda fór sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins að mati Héraðsdóms Vesturlands. Brotið var talið nægilega sannað en ákærði hafði ekki hlotið refsingu áður og var refsingin nú talin hæfileg 25 þúsund króna sekt. Málið var dæmt 3. maí sl. af Kristni Halldórssyni, settum héraðsdómara.