Það voru sorgleg tíðindi 2. júlí þegar mér var tjáð að Heiðar Snigill no 10 hefði látist í bifhjólaslysi í Öræfasveit.
Heiddi eins og hann var æfinlega kallaður var á heimleið af landsmóti Snigla.
Heiðar var fæddur 15. mai 1954 og var því ný orðinn 52 ára. Ég kynntist Heidda fyrir rúmum 20 árum á upphafsárum Snigla. Á þessum 20 árum höfum við ýmislegt brallað og ófáa mótorhjólatúrana höfum við
tekið. Ef Heiddi var beðinn um hjálp eða að taka eitthvað að sér var hann alltaf fús til að gefa af sér í svoleiðis.
Ófáir landsmótsgestir af landsmótum Snigla hafa smakkað hans sérlöguðu Landsmótssúpu sem hann hefur eldað síðustu 20 ár á öllum landsmótum síðan 1987. Sennilega er ekki til sá Íslendingur sem hefur eldað ofan í eins marga mótorhjólamenn og Heiddi, en oft tók hann að sér að elda fyrir bæði götu og torfærumótorhjólamenn á hinum ýmsu uppákomum og ferðalögum hjólamanna.
Fyrir tæpum tveim árum tók Heiddi sig á og breytti um lífsstíl og fór í kjölfarið safna mótorhjólum fyrir alvöru og síðast þegar ég frétti átti hann 24 og hálft mótorhjól. Heiddi var eflaust einn reyndasti bifhjólamaður landsins og keppti í hinum ýmsu keppnum á mótorhjólum og meðal annars var hann Íslandsmeistari í sandspyrnu og samkvæmt mínum heimildum hefur enginn náð að slá met hanns á mótorhjóli í sandspyrnu. Heiddi keppti í nokkur ár í Íslandsmótinu í meistaradeild í þolakstri og var ævinlega elsti keppandinn í þeim keppnum, en besti árangur hanns var 12. sæti á móti þeim bestu. Hann keppti líka á jeppa í torfæru og varð Íslandsmeistari í götubílaflokki 1985.
Fyrir rúmu ári síðan var haldið upp á 100 ára afmæli mótorhjólsins á Sauðárkróki og þar var Heiddi að sjálfsögðu mættur með hluta af hjólaflota sínum, en af fimm keppnum sem voru í tilefni hátíðarinnar þá tók Heiddi þátt í þrem keppnum og sigraði tvær þeirra.
Í tengslum við þessa hátíð kom upp sú hugmynd að gera minnisvarða um fórnarlömb bifhjólaslysa. Það kom aðeins einn maður upp í hugann þegar smíða og hanna átti verkið. Að sjálfsögðu var það Heiddi sem fenginn var í verkefnið og naut hann svo mikils trausts meðal þeirra sem til listasmíða hanns þekktu og tilhlökkunin var mikil þegar afhjúpa átti verkið. Þetta listaverk Heidda stendur við Varmahlíð og heitir Fallið og er til minningar um fórnarlömb bifhjólaslysa, en er það kaldhæðnislegt að listaverkasmiðurinn sjálfur sé orðin einn af fórnarlömbum bifhjólaslysa. Heidda verður sárt saknað meðal bifhjólamanna um ókomin ár. Ég vil votta fjölskyldu Heidda samúð mína á þessum erfiðu tímum.
Hjörtur Líklegur Snigill #56
Hjörtur L. Jónsson
Framkvæmdastjóri VÍK.