Ákveðið hefur verið að framlengja skráningarfrest í endurokeppnina til kl. 20 á föstudag. Keppendur geta því enn skráð sig á gamla góða verðinu. Okkur er mikið í mun að fá sem flesta keppendur enda lítur út fyrir að allar aðstæður verði hinar bestu á laugardaginn, gott veður, skemmtileg braut og frábær aðstaða á svæðinu.
Keppnisbrautin var lögð í gærkvöldi á Bolöldu. Brautin er um 10 km löng og liggur að mestu á svæðinu ofan við bílastæðið og upp að Þórishamri eða svipuðum slóðum og brautin var í fyrra. Brautin verður hröð og skemmtileg og ætti að henta öllum flokkum. Motocrossbrautin verður nýtt að mestu leyti og keppnin ætti því að verða mjög áhorfendavæn og spennandi.
Nú er um að gera að taka stökkið og skrá sig í lokakeppni sumarsins – stefnum á að þetta verði fjölmennusta keppni ársins utan Kirkjubæjarklausturs!