Íslandsmótið 3. umferð fór fram á Akureyri við bestu hugsanlegu aðstæður, logn, kjörrakastig, ekkert ryk, engin drulla, engin hálka, aðstæður sem sé ekki að trufla menn. Keppendur brostu hringinn og óku hringinn hraðar en nokkru sinni fyrr, enda ekkert sem truflaði þá nema kannski einstaka aðrir keppendur sem voru að flækjast fyrir. Þó ótrúlegt megi virðast verða slysin stundum frekar við slíkar aðstæður þ.e. menn keyra hraðar og lenda því hraðar og fastar á jörðinni ef eitthvað bregður út af, eins og alltaf gerist í motocrossi.
Sjö keppendur urðu að heimsækja sjúkrahúsið á Akureyri að þessu sinni. Sem betur fer urðu engir alvarlegir áverkar, um var að ræða pústra, tognanir og tvö beinbrot. Allt grær þetta og útlit til þess að menn verði jafngóðir aftur. Því miður fóru sögusagnir af stað um tvö hryggbrot, að þyrlan hefði komið til að ná í slasaða, og menn væru lamaðir og ýmislegt fleira. Það urðu sem sé engin hryggbrot, enginn lamaðist og þyrlan sást ekki.
Hins vegar er það óvenju mikið að 7 keppendur þurfi að fara á spítala eftir keppni. Keppendur á mótinu voru tæplega 100, ekið var frá 10.50 til 16:45 eða í u.þ.b. 6 klst. og meirihluti tímans í keppni. Margt getur gerst á svo löngum tíma. Ennfremur er það alveg ljóst að menn fara frekar á spítala ef óhapp verður á motocrossbraut en t.d. ef þú dettur í fótboltaleik. Eftir fall í hægari íþróttum er oftast ljóst hvar áverkinn er, þ.e. staðbundinn t.d. ökklinn. Ef þú ferð hausinn á meira en 40 km hraða í motocrosskeppni þá getur áverkinn verið hvar sem er, þarf ekki bara að vera á hendinni sem þú finnur mest til í. Engin áhætta er tekin heldur er farið með þig á spítalann þar sem gengið er úr skugga um hverjir áverkar eru, vonandi eru þeir minniháttar og þú gengur aftur út en þangað til fara sögur á kreik um bakbrot og þyrlur.
Við þökkum keppendum og öllum öðrum sem lögðu hönd á plóginn við að búa til frábært mót og eftirminnilegan dag. Öll úrslit er að finna á mylaps.com
Þorsteinn fyrir KKA