Grein í Morgunblaðinu í dag.

Í Morgunblaðinu í dag er talað um utanvegaakstur torfæruhjóla við Hengil. Þeir tala auðvitað ekkert um að með nýju svæði á Bolöldu hefur ásókn í að keyra á öðrum svæðum, og þá sér í lagi Hengilssvæðinu snar minkað. Það þarf ekki að taka fram að VÍK fordæmir allan utanvegaakstur. Hér er greinin:
Í VESTURHLÍÐUM Hengils er að finna ljótar skemmdir af völdum torfærumótorhjóla, göngustígar eru illa farnir eftir hjólin og víða hefur þeim verið ekið upp móbergskletta, að sögn Sigurðar Sigurðarsonar útivistarmanns. Sl. sunnudag sá hann til tveggja mótorhjólamanna sem óku utan vega, eftir stíg sem mótorhjólamenn hafa


sjálfir myndað.

Sigurður segir að förin og skemmdirnar eftir hjólin sé víða að finna, m.a. í Engidal og Marardal sem eru vinsælir til útivistar. Torfæruhjólamenn hafi ekki bara farið um sanda sem reynt hafi verið að græða upp, um gróður og gróðurleysur, heldur einnig "klifrað" upp móbergskletta og valdið skaða sem sé sjáanlegur úr mikilli fjarlægð. Þá hafi verið farið á mótorhjólunum um alla göngustíga og þeir spólaðir upp. Þegar stígarnir verði síðan ófærir vegna hjólfaranna myndi hjólamennirnir nýjan stíg við hliðina og svo koll af kolli. "Þetta er eiginlega allt útbíað," segir hann.

Sigurður gekk fyrst um svæðið fyrir 24 árum. "Þá voru engir göngustígar, bara kindastígar. Ég hef farið þarna alltaf af og til síðan og langmest hefur breytingin orðið á síðustu fimm árum," segir hann. Þegar svonefndur Reykjavegur hafi verið kynntur hafi göngufólki fjölgað og þá hafi umferð hestamanna aukist upp á síðkastið. Slit af völdum göngu- og hestamanna sé þó smávægilegt miðað við skemmdirnar af völdum torfæruhjólanna. Verst finnst honum þegar hjólunum er ekið upp kletta og skófir spólaðar burt og bergið rifið upp.

Sigurður segir að mótorhjólamennirnir eigi engan rétt á að vera á þessum slóðum enda liggi engir vegir þarna um. Hann minnir einnig á að allur utanvegaakstur er bannaður. Þrátt fyrir það hafi lögreglan tekið fálega tilkynningu hans um utanvegaaksturinn á sunnudaginn. Sigurði finnst líklegast að mótorhjólamennirnir aki að vesturhlíðum Hengils frá Litlu-Kaffistofunni og um gamla Hellisheiðarveginn enda sé leiðin þar yfir stutt og fljótlegt að fara á hjólunum.

Skildu eftir svar