Svæðið við Bolaöldu er allt að koma til og krossbrautin er komin í ljós og hefur nánast ekkert skemmst í flóðunum undanfarið. Enduroslóðarnir allir eru þó ALGJÖRLEGA ÓFÆRIR og eru lokaðir – sandhringurinn í Jósepsdal er hins vegar frábær! Hjörtur heflaði stóru brautina í dag og hún er orðin vel fær þó það séu pollar og einhver bleyta á nokkrum stöðum. Litla brautin er í góðu standi og mega stóru hjólin fara í hana á meðan önnur svæði eru ófær. Á gamlársdag eru góðar veðurhorfur og því um að gera að mæta á svæðið í síðasta skipti á árinu.
Í dag var gengið frá samningi um staðsetningu fjórhjólaleigu á svæðinu og verða fyrstu túrarnir með farnir á morgun þegar túristum verður boðið „að sjá landið“ í orðsins fyllstu merkingu. Til að byrja með verður aðstaða þeirra í gámum á svæðinu en stefnt er að því að koma upp léttu stálgrindahúsi í vor sem okkur býðst hugsanlega afnot fyrir geymslu á traktornum og öðrum tækjum. VÍK hefur ennfremur af þessu mánaðarlegar tekjur sem koma sér vel við uppbyggingu svæðisins. Við hvetjum menn til að fylgjast vel með þessu framtaki en þeir sem að fjórhjólaleigunni standa eru að gera þetta af stórhug og dugnaði.
Stjórn VÍK sendir annars öllum félagsmönnum bestu áramótakveðjur með ósk gott og farsælt ár 2007.
Keli formaður