Landsnet vinnur nú að strengsetningu 132kV raflína í Hafnarfirði. Búið er að grafa skurði og fer lagning strengjanna að hefjast. Því miður hefur verið eitthvað um að motocross hjól hafi verið að keyra yfir skurðinn með tilheyrandi skemmdum á skurðbökkum og efnisróti í skurðbotni. Nú fer eins og fyrr segir að koma að lagningu sjálfra strengjanna í skurðinn og komi skemmd í streng (vegna þess að ekið er yfir hann eða grjót
fellur á hann) getur það kallað á afar kostnðarsama viðgerð sem framkvæmd er af erlendum sérfræðingum. Það eru því vinsamleg tilmæli okkar til hjólamanna að þeir virði umgengnistakmarkanir á framkvæmdasvæðinu.
Landsnet hefur ekki gert athugasemdir við umferð hjóla á línuvegum fyrirtækisins en bendir á að þar sem margir þeirra eru einkavegir þá eru menn þar á eigin ábyrgð og viðhald veganna misjafnt. Ennfremur er hluti línuvega inni á landi bænda og öllum óheimil umferð um þá án heimildar landeiganda. Landsnet vonast eftir góðri samvinnu og umgengi hér eftir sem hingað til og ítrekar tilmæli sýn um að virða vinnusvæði fyrirtækisins.