Nú verður sá hátturinn hafður á að B-flokkurinn verður keyrður í alveg sér braut, og verður hún miðuð við að allir sem eru að byrja í sportinu (konur jafnt sem karlar) geti keppt. Brautin sjálf verður að mestum hluta byggð upp úr enduroslóðunum sem eru nú þegar til staðar í Bolöldunni ásamt hluta af crossbrautinni, og erfiðleikastuðullinn talsvert léttari en B-flokkurinn hefur séð lengi.
Þess vegna hvetjum við alla (stelpur og stráka) sem hafa ekki treyst sér til keppni hingað til í enduroinu að skrá sig til leiks 2. september nk.
Þetta gefur möguleika á að Meistaraflokkurinn getur fengið braut sem verður bæði krefjandi og tæknilega erfið. Brautin er að lang mestu leiti ný, þar er að finna mikið af grasþúfumoldarslóðum ásamt snarbröttum grasbrekkum og brattari malarfjöllum, alvöru árfarvegi og tæpan einn hringur í crossbrautinni.
Það er ekki ólíklegt einhverjir eigi eftir að kvarta yfir því að brautin sé oferfið, rétt eins og það er mikið kvartað yfir því ef brautin er of létt, (sbr. Bolaöldukeppnina í fyrra) en það er okkar mat að enduro í meistaraflokki eigi að vera erfitt, bæði á líkama og sál.
Við vonum að þau fjölmörgu hreystimenni sem hafa gaman að því að glíma við þolmörk sjálfsins og hjólsins (það er enduro) láti ekki þá áskorun sem þessi braut er framhjá sér fara.
Sjáumst í góða veðrinu á sunnudaginn! Enduronefnd