Sveppagreifinn, hann Sverrir, er með netta pælingu á vefnum sínum, Motosport.is.
Allir þeir sem áhuga hafa á keppnum, brautum og almennt öllu sem viðkemur aðstöðu okkar og umhverfi hafa gott af því að lesa greinina sem fylgir hér með…
Er uppbygging sportsins í hættu ??
Ég hef mikið velt þessari spurningu fyrir mér upp á síðkastið vegna þess að aukin nýliðun hefur ekki skilað sér í starfi klúbbana – þrátt fyrir mikinn og aukinn áhuga landans á motocrossi og enduro. Sjálboðaliðar er deyjandi stétt á Íslandi, en það þarf vart að taka það fram að án sjálboðaliða er starf klúbbana í hættu og þar með uppbygging sportins hér á landi. MSÍ auglýsti eftir einstaklingum til að taka að sér tímatöku á keppnum. Eftir því sem ég best veit, sótti engin um. Fjölmiðlanefnd MSÍ hefur einnig auglýst eftir pennum, en enginn hefur ennþá sýnt því áhuga
Allir hjólamenn vilja betri brautir, betri slóða, aðgang að hálendinu og helst stóra innanhúsbraut. Er ég engin undantekning frá því. En fáir eru viljugir til að leggja hönd á plóginn. Ef einn eða tveir nýliðar slysast til þess að taka þátt í sjálfboðavinnu sökum áhuga, þá eru þeir hinir sömu gjörsamlega útjaskaður á mjög stuttum tíma. Oft er það sama fólkið sem mætir í braut á vinnukvöldi til að tína grjót eða hreinsa til en allir njóta góðs af því. Samt eru ekkert fleiri klukkutímar í sólahringnum hjá þeim sem mæta en hjá hinum sem mæta ekki.
Þetta sport er borið uppi af allt of fáum einstaklingum og nú nýlega bárust fregnar af því að enn eitt félagið væri nánast að leggja upp laupana sökum áhugaleysis og lélegrar nýliðunar í innra starf félagsins. Ef af því verður, dettur enn ein keppnin úr Íslandsmeistaramótinu og megum við vart við því. En skemmst er frá því að segja að margir keppendur eru óhressir með brotthvarf keppninnar sem fór fram í Ólafsvík. Til stóð að fjölga keppnum á þessu ári í sex talsins, en vegna fyrrgreinds skorts á sjálfboðaliðum og langþreytu hjá þeim sem hafa sinnt þessu fram að þessu, þá datt Ólafsvík út og við sitjum uppi með fimm keppnir í motocrossi og þrjár í enduro.
Hvað er til ráða og hvernig geta félögin leyst þetta sívaxandi vandamál? Þurfa félögin að ráða til sín starfsmenn með tilheyrandi kostnaði og fjárhagsbyrði? Það myndi endurspeglast í hækkun á félagsgjaldi og brautargjaldi. Eiga félögin að ráða til sín verktaka í tímabundin verkefni, eins og t.d. flöggun við keppnir og grjóthreinsun í braut? Í því sambandi virðast aðrar íþróttadeildir eða greinar tilbúnar að sinna slíkri vinnu til að afla tekna fyrir sitt félag. Skemmst er frá því að segja að sum fótboltafélögin safna digrum sjóðum með þessu og nýta það í sitt uppbyggingarstarf. Eigum við að reka þessi félög eins og golfklúbba, með dýr árskort – fyrsta árið mjög dýrt og svo vinnur þú þér inn stig sem leiðir til afsláttar? Árgjald í meðal golfklúbb á Íslandi t.d. um 100 þúsund krónur á ári.
Með þessum pistli er ég ekki að kveða neinn dauðadóm yfir sportinu heldur einfaldlega að reyna að vekja fólk af þeim þyrnirósasvefni sem þaðvirðist vera fallið í. Það er ekkert launungarmál að starfsemi félagana byggist á sjálboðaliðastarfi og án þess er núverandi rekstrarform úr sögunni. Sjálboðavinna er ekki og þarf ekki að vera leiðinleg og er í raun hin mesta skemmtun!
Að lokum vil ég enda þennan pistil á orðum John F. Kennedy sem sagði á sínum tíma, "do not ask what the country can do for you. Ask what you can do for your country!"