Vinsældir vetrar endúró hafa aukist ár frá ári og er svo komið að varla líður sú helgi að ekki megi sjá tví- eða fjórhjól reyna sig í snjónum, við bæjarmörkin eða til fjalla. Mikil ábyrgð fylgir akstri í snjó og hafa verið að koma upp mál þar sem leiða má líkur að því að tvíhjól hafi spólað sig niður í gegnum snjóinn og ofan í ófrosinn eða lausfrosinn gróður og mosa. Þetta veldur sárum, svipuðum og þeim sem myndast við utanvegaspól á sumrin. VÍK vill því beina þeim tilmælum til þeirra sem stunda vetrar endúró að aka eftir aðstæðum. Einnig má benda á reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands í þessu ljósi, en þar segir í 4. gr. um akstur utan vega: „Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands. Heimilt er þó að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum svo og snævi þakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.“