Gamla hjólið hans Steve McQueen selst á góðan pening

 

Triumph Bonneville Desert Sled sem Steve McQueen átti
Triumph Bonneville Desert Sled sem Steve McQueen átti

Í vikunni voru tveir af gripum Steve McQueen seldir á góðan pening á uppboði í Kaliforníu. Alþjóðlega keppnisskírteinið hans var selt á rúmar 5 milljónir íslenskar og gamla hjólið hans var selt á um 11 milljónir.

Steve McQueen er líklega mesti töffari sögunnar, allavega mesti motocross töffari sögunnar. Hann var alvöru Kaliforníu gaur sem keppti um hverja helgi. Hann þurfti að keppa undir dulnefni þar sem samningar hans sem mesta kvikmyndastjarna síns tíma voru allir með klausu um að hann mætti ekki snerta mótorhjól.

Hjólið sem selt var í vikunni er af tegundinni Triumph Bonneville Desert Sled frá árinu 1963 og er endursmíðað af áhættuökumanninum Bud Ekins. Bud var reyndar sá sem stökk yfir girðinguna í frægu atriði í The Great Escape í gervi McQueens. Árið eftir voru þeir félagar báðir í 5 manna vinningsliði Bandaríkjanna í Six Days sem haldið var í Austur-Þýskalandi það árið, þannig hann var heimsklassa ökumaður.

Keppnisskírteini McQueen seldist á dágóðan pening
Keppnisskírteini McQueen seldist á dágóðan pening

McQueen keppti oft í Baja1000 kappakstrinum og mörgum álíka keppnum. Einnig keppti hann oft á bílum. Hann varð t.a.m. í öðru sæti í 12 klst Sebring kappakstrinum á eftir Mario Andretti. Hann var einu sinni á forsíðunni á Sports Illustrated á Husqvarna motocross hjóli.

Fyrir þá sem ekki hafa séð hina klassísku motocross kvikmynd On Any Sunday er rétt að drífa sig að gera það því þar kemur McQueen mikið við sögu. Fyrir okkur hina, er rétt að skella henni í tækið einu sinni enn.

Skildu eftir svar