Nú eru bara 20 tímar í keppnina á morgun og spenningurinn farinn að byggjast upp. Sýning yngstu ökumannanna 50/65 cc byrjar kl. 14 í litlu brautinni og 85 hjólin byrja kl. 15 í stóru brautinni. Við bendum á að 85 flokkurinn á morgun er fyrst og fremst hugsaður fyrir byrjendur en ekki þá sem eru að keppa í Íslandsmótinu. Ekki verða notaðir tímatökusendar þannig að allir krakkar sem langar að reyna sig í braut geta skráð sig í sýninguna frá kl. 13. Foreldrar eru beðnir um að hjálpa til við að manna palla og beygjur og gæta öryggis krakkanna.
Búið er að leggja brautina fyrir miðnæturkeppnina og hún er tæpir 16 km á lengd og býður upp á pínulítið af öllu, sandur, gras, brekkur og brölt. Spáin lítur bara vel út, kannski smá skúrir = vökvun á brautina sem veitir ekki af eftir sólina í dag. Annars minnum við menn á skoðunina sem hefst kl. 13, hafa pappírana í lagi, hjólið tryggt og skráð og í standi. Einnig biðjum við menn að muna að þetta er keppni til skemmtunar, getustig manna er talsvert mismunandi og því biðjum við hraðari ökumenn að sýna þeim hægari tillitssemi og þolinmæði og taka ekki fram úr með of miklum látum. Hægari ökumenn biðjum við sömuleiðis um að gefa hraðari ökumönnum svigrúm til að taka fram úr eftir aðstæðum. Sjáumst svo á morgun í hátíðarskapi.