Á mánudaginn hefst elsta alþjóðlega árlega mótorhjólakeppni sem haldin er í heiminum. Keppnin heitir International Six Days Enduro (ISDE) en eins og nafnið gefur til kynna er þetta sex daga þolraun með stóru þorni.
Fyrst var keppt í þessari keppni árið 1913 í Carlisle í Englandi og unnu heimamenn fyrstu keppnina. Í ár er þetta 84. skiptið sem keppnin er haldin en á síðustu 25 árum hafa Ítalir verið sigursælastir með 10 sigra, Finnar með 7, Svíar 4 og Frakkar 3 en þeir unnu einmitt í fyrra. Keppnin er eins konar bland af hefðbundnum rally keppnum og Motocross of Nations. Keppt er á ferjuleiðum og sérleiðum í liðum en þó eru nokkur atriði sem eru öðruvísi t.d. getur hvert land sent fleiri en eitt lið og keppt er í nokkrum aldursflokkum, félagaflokki (sbr. MotoMos), kvennaflokki og einstaklingsflokki. Aðalkeppnin er í landsliðsflokki þar sem 6 ökumenn eru í hverju liði og 5 bestu á hverjum degi telja, og er þetta opinber heimsmeistarakeppni í liða-enduro.
Að þessu sinni er keppt í Figueira Da Foz í Portúgal og er alls ekið um 1250 kílómetra leið sem þýðir að ekið er á milli 7 til 8 klukkustundir á hverjum degi. Stærstur hluti keppninnar eru ferjuleiðir sem ekki eru beinar tímatökur en samt verður að klára innan vissra tímamarka. Auk þess eru um það bil 6 próf á hverjum degi þar sem tímataka ræður og annaðhvort er í motocrossbraut eða í sérlagðri tímatökubraut. Í svona langri keppni er eins gott að spara kraftana og hjólið því ekki má skipta út varahlutum í hjólið svo sem grind, hjólnöfum, sveifarás og hljóðkúti. Annað má skipta um en aðeins fæst mjög takmarkaður tími til þess, ekki má vinna í hjólinu alla nóttina, því aðeins 2 aðstoðarmenn mega vinna við hvert 6 manna lið. Auk þessa verður hjólið að vera með ljósum, stefnuljósum, hraðamæli, flautu og standara.
Umhverfismálin eru heldur ekkert feimnismál því stoppa má hvaða ökumann sem er, hvenær sem er, og gera hávaðamælingu. Sérstaklega er tekið fram að ökumaðurinn má ekki troða sokk í lofthreinsarann á meðan á mælingunni stendur!
Þess má geta að sænski Íslandsvinurinn Anders Eriksson er að keppa i 17. sinn i keppninni i ár og einn bandaríkjamaður er að keppa í 28.sinn. Auk þess keppa nánast allir frægustu enduromenn heimsins í þessari keppni.
Svo er spurning hvort Íslendingar fari ekki að senda lið í keppnina, á næsti ári verður hún í Mexíkó en kannski er rétt að safna bara fyrir árið 2011 en þá verður hún í Finnlandi.
Hér er síða portúgalska sambandsins (á portúgölsku) en þar má sjá kort af leiðunum, keppendalista og fleira og svo er hægt er að fylgjast með tímum í beinni útsendingu hér.
Nóg verður að gera hjá starfsfólki keppninnar því rétt tæplega 800 keppendur eru skráðir til leiks.