Undirbúningur undir Dakar rallið er í fullum gangi. Bæði keppnishaldarar og þátttakendur hafa í nógu að snúast. Keppnin hefst 2. janúar n.k. en keppendur þurfa að vera komnir með hjól og annan búnað í skip fyrir jóladag. Það má því búast við því að margir standi á haus þessa dagana við frágang og prófanir.
Einhverjum brá í brún þegar reglum um mótorstærð hjóla var breytt. Hræðsla við að stóru liðin myndu draga sig út úr keppninni og þar með topp ökumennirnir með, reyndist hins vegar óþörf.
Þetta hefur haft lítil áhrif á það hverjir mæta til leiks. …
Þó keppendum hafi eitthvað fækkað síðan í fyrra, eru allir topp ökumenn síðustu ára með í ár. Það hefur ekki fælt þá frá þó þeir megi ekki mæta á stóru KTM hlunkunum. Menn mæta bara á vel ‚preppuðum‘ 450 hjólum og nú koma inn í myndina ný merki á þessum vetvangi. Sherco menn hafa t.d. talað hinn franska David Casteu inná að taka þátt fyrir sína hönd. Hann var með í fyrra og ætlaði sér stóra hluti. Eins og frægt er lenti hann og fleiri, í vandræðum með dekkjamúsina í Argentíska sumarhitanum í fyrra og rallið næstum búið áður en það hófst. Líklega koma menn betur búnir í þetta skipti, reynslunni ríkari frá fyrsta Suður-Ameríku Dakarnum.
Önnur stórmenni í Dakar-bransanum munu mæta á svæðið og má þar helsta nefna:
Marc Coma – Sigurvegarinn frá í fyrra og óþreytandi hjóla-rall-keppandi.
Cyril Despres – Sigraði 2007 og annar í fyrra. Hann hefur sýnt mikla hjólafimi í keppnum eins og Romaniacs, The tough one, Ertzberg o.fl.
Allar líkur eru á því að þessir tveir munu skiptast á því að hafa forystu í þessum erfiða tveggja vikna kappakstri.
Aðrir stórir Dakar-keyrarar sem vert er að nefna eru t.d. frændi okkar hinn norski Páll Andrés Ullevalseter og svo kannski mesti þrauseigjuboltinn af þeim öllum, frænka okkar hin sænska Annie Seel – Fjörtíuogeinsárs, 163cm og 55kg, og hefur þegar klárað Dakarinn tvisvar. Geri aðrir betur.
Þá er vert að hafa augun á bandaríkjamanninum viðkunnanlega, Jonah Street. Hann hefur sýnt mikla aksturshæfileika og oft komist í topp ‚overall‘ sæti, en svo verið óheppinn með meiðsl eða bilanir. Kannski verður 2010 hans Dakar.
Alla vegna er klárt að Nýi-Dakarinn verður ekkert síður spennandi núna en undanfarin ár. Nú liggur leiðin í gegnum hina al-þurru Atacama-eyðimörk og lofa keppnishaldarar að leiðarvalið muni reyna vel og vandlega á bæði menn og maskínur.