Krakkakrossið tókst alveg ljómandi vel. Það voru mættir um 40 gallharðir hjólarar tilbúnir að fara eftir öllu því sem Gulli sagði þeim að gera. Það var búið að leggja skemmtilega braut um höllin sem var afmörkuð með keilum. Krökkunum var skipt upp í 3 hópa, PW hjól 50cc, 65cc og 85cc.
Það er svakalega gaman að sjá þessa yngstu ökumenn takast á við þær þrautir sem lagðar voru fyir þá. Einbeiting skein út úr hverju andliti og ekki voru foreldranir síður spenntir á kanntinum. Að sjálfsögðu fóru einhverjir á hausinn en þar sem alls öryggis er gætt á æfingunum varð engum meint af. Foreldrar voru líka duglegir við að hjálpa til við gæslu í brautinni.
Eina sem kom uppá í þetta sinn var að skipulagið í höllinni gekk ekki alveg upp. Stórafmæli var í veislusal húsins og því miður passa ekki okkar skellibjölluhjól saman við þannig hátíð. Við erum að sjálfsögðu hópur af svakalega jákvæðu fólki og þótti það ekki tiltökumál að stytta þessa æfingu. Næsta æfing verður betur samhæfð við aðra viðburði í húsinu. Stefnan er sett á að hafa næstu æfingar fljótlega eftir hádegi á sunnudögum. Nánari tilkynning um það síðar í vikunni hér á netinu.
Við þökkum Reiðhöllinni fyrir það að gefa okkur tækifæri á þessari uppákomu. Svona uppákoma er að sjálfsögðu ekki möguleg án aðkomu foreldra og aðstandenda. Svo erum við líka með frábæra pilta, Gulla og Helga Má, sem hafa stjórnað barnaæfingunum með frábærum árangri í allt sumar og munu stjórna barnaæfingunum í vetur.
Sveppagreifinn var á svæðinu og tók fullt af myndum, sjá á vefnum hans HÉR
Stjórnin.
Ég væri sko alveg til í að vera 5 ára!