Næstkomandi miðvikudagskvöld, kl. 20:00, koma á fund hjá Ferða og útivistarfélaginu Slóðavinir þau Marta Jónsdóttir, lögfræðingur, og Kristófer Kristófersson, verkefnastjóri tæknimála, en bæði starfa þau hjá Umferðarstofu. Þau koma til með fjalla um öll þau mál sem snúa að skráningar og skoðunarmálum mótorhjóla, auk þess sem fjallað verður um breytingar á umferðarlögum og áhrif þeirra. Ásgeir Örn Rúnarsson, stjórnarmaður í Slóðavinum og nefndarmaður Tækninefndar félagsins, heldur erindi um raunveruleg áhrif regluverksins á umhverfi hjólafólks.
Einnig mætir Karl Alvarsson, skrifstofustjóri samgönguráðuneytisins á samgöngusviði. Endurskoðun á Umferðarlögum er á borðinu hjá Karli og kemur hann til með að fjalla um breytingar á umferðarlögum sem snúa að mótorhjólum. Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar á umhverfi tví-, fjór- og sexhjóla, og hafa Slóðavinir fundað nokkrum sinnum með ráðuneytinu og sent inn athugasemdir við frumvarpið.
Hjá okkur verða því allir helstu embættismenn stjórnkerfisins sem hafa áhrif á það laga- og reglugerðaumhverfi sem um hjólafólk gildir.
Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Arctic Trucks, Kletthálsi 3, og hefst eins og áður segir kl. 20:00 .