Samkvæmt Sveppagreifanum var mikið fjör á ísnum í gær þrátt fyrir að hann væri farinn að gefa eftir í hlýindunum. Hjólarar eru náttúrulega hörkutól og láta ekki smá bleytu hafa áhrif á sig.
Í dag var ekki síður mikið fjör enda veðrið mun vænna. Í Þorlákshöfn var múgur og margmenni og að sögn hefur bílastæðið aldrei verið eins troðið. Sandurinn er að sjálfsögðu krefjandi þegar hann er svona blautur. Mörgum fannst það frábært en öðrum fannst það erfitt – en allir skemmtu sér vel.
Í Reiðhöllinni var að venju hið frábæra VÍK námskeið. Í dag voru námskeið fyrir alla aldurshópa – alveg frá minnstu hjólurum upp í fullorðna. Allir skemmtu sér frábærlega og voru gríðarlega ánægðir með kennsluna.
Á fullorðinsnámskeiðinu voru mættir sex galvaskir ökumenn og þar á meðal miklar hetjur og meistarar. Það er nú þannig að allir hafa gott af því að fara yfir grunnatriðin, beygjur, bremsun, jafnvægi, horfa, klemma, standa, passa rammann og nota líkamann til að stjórna hjólinu. Það er aldrei hægt að æfa sig of mikið í þessum grunnatriðum.
Helgi Már sagði reyndar, þegar hann sá að á námskeiðið voru mættir ekki minni menn en Raggi heimsmeistari – Hjalli #139 – MXS Össi – Árni Lögga – Kappi á Suzuki ( sem ég þekki ekki ) og líka ég, að hann vissi eiginlega ekki hvort hann gæti kennt sumum af þessum hetjum eitthvað. En að sjálfsögðu gat hann það og fór létt með. Helgi byrjaði á því að tilkynna að allir þeir sem felldu keilu yrðu að skila 10 armbeygjum sem refsingu. Jamm og jæja, það er þessi. Að sjálfsögðu felldu flestir keilu og þurftu að taka á sig sína refsingu. Einn í hópnum virtist eiga mjög erfitt með að hemja aflið í hjólinu og felldi að meðaltali eina keilu í hverjum hring. Hann reyndi hvað hann gat að afsaka sig með því að hann væri illa haldinn í öxlum þannig að hann gæti ekki tekið á sig þessa refsingu, það var ekki málið hann fékk bara að gera froskahopp í staðinn. Nokkrir áttu líka erfitt með að hemja tuggurnar og enduðu með því að taka góð jarðvegssýnishorn 🙂 Frábær helgi að venju hjá okkur hjólafólki.