Kári Jónsson sigraði aftur í Endurocrossinu

Kári Jónson á fullri ferð
Kári Jónson á fullri ferð í Reiðhöllinni

Önnur EnduroKross keppnin var haldin í gær í Reiðhöllinni. Fjöldi fólks lagði leið sína í höllina að þessu sinni og fylgdist með baráttunni. 25 manns voru skráðir til keppni, allir bestu ökumenn landsins sem allir ætluðu sér stóra hluti. Brautin sem lögð var á laugardaginn með samstilltu átaki fjölda góðra manna bauð upp meiri hraða en í fyrstu keppninni. Grjótkaflinn ógurlegi sem stoppaði marga þá hafði verið gerður aðeins viðráðanlegri – en þó langt frá því að vera auðveldur. Keppendum var skipt í þrjá hópa og eftir tvö moto fóru sex efstu menn áfram í lokariðil en næstu átta þar á eftir þurftu að fara í Síðasta séns moto.

Mikil barátta og hörkukeppni á milli manna einkenndi lokakeppnina, sérstaklega var gaman að fylgjast með jaxlinum Hauki Þorsteinssyni sem keyrði brautina alltaf á jöfnum hraða í fremsta hóp. Hann lét sér aldrei bregða þó einn og einn hraðari ökumaður kæmist fram úr (Einar #4 🙂 heldur pikkaði hann aftur upp í næstu eða þar næstu þraut! En það var Kári Jónsson sem enn og aftur sýndi mikla yfirburði og hreinlega skildi restina af hópnum eftir í tvígengisbrælu. Hann leit aldrei til baka og rúllaði keppnina hreinlega upp. Haukur endaði í öðru sæti þar á eftir og Einar Sigurðarson endaði í þriðja sæti eftir snilldarleg tilþrif. Kristófer Finnsson fékk svo Tilþrifaverðlaun dagsins fyrir að ýta hjólinu sínu keðjulausu í gegnum brautina við góðar undirtektir áhorfenda.

Vélhjólaíþróttaklúbburinn þakkar keppendum og áhorfendum fyrir þátttökuna. Einnig viljum við þakka öllum þeim fjölmörgu sem hjálpuðu við brautarlagninguna og keppnishaldið í gær, án ykkar væri þetta ekki hægt. Einnig viljum við þakka þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu til tæki og ómetanlega aðstoð í kringum keppnina s.s. Hreinsun og flutningar, Viggó Viggósson, Marinó/Dráttarbílar, Eysteinn/Suðurverk, Hekla, JHM-sport, og svo auðvitað Nítró og N1 sem styrktu keppnina dyggilega. Síðast ber þó að þakka snillingnum Guðbjarti Stefánssyni sem hannaði brautina og verkstýrði brautarlagningunni eins og herforingi

Keli

Ein hugrenning um “Kári Jónsson sigraði aftur í Endurocrossinu”

Skildu eftir svar