Langstærsta akstursíþróttakeppni og einn af stærstu íþróttaviðburðum ársins fer fram við Kirkjubæjarklaustur í dag. TransAtlantic Off-Road Challenge er þar haldin í níunda skipti og eru tæplega 500 keppendur skráðir til leiks. Keppendafjöldi var takmarkaður vegna aðstæðna á keppnisstað en eftirspurn eftir þátttöku í keppninni var gríðarleg og fylltist í skráninguna á innanvið sólarhring.
Keppnin liðakeppni og er 6 klukkutíma löng. Keppt er í nokkrum flokkum og af þeim er Tvímenningur er vinsælastur en einnig er hægt að keppa í þrímenning og þeir sem keppa einir í liði keppa um Járnkarlinn. Verðlaun eru einnig veitt fyrir besta kvennaliðið og heldri borgara þar sem samanlagður aldur tveggja keppenda er yfir 90 ár. Afkvæmaflokkurinn er einnig vinsæll en þar keppa bæði feðgar, feðgin, mæðgur og mæðgin.
Venjan er að hver keppandi ekur einn hring í brautinni sem er um 20 til 30 mínútur og hvílir svo meðan félaginn tekur næsta hring. Aðstoðarmenn taka svo hjólið í hléinu og fylla á bensín og smyrja keðjuna.
Flestir keppenda hafa það markmið að þrauka í gegnum þessa þolraun án þess að gefast upp. Einhverjir stefna auðvitað á sigur og hafa nokkrir fengið útlendinga til að vera með sér í liði til að auka sigurlíkurnar. Útlendingar hafa keppt í keppninni á hverju ári og margir þeirra heimsfrægir í mótorhjólabransanum eins Giovanni Sala, Ed Bradley og sjöfaldur heimsmeistari í enduro, David Knight.
Keppnin er haldin í samstarfi mótorhjólaáhugamanna á Klaustri, landeiganda að Ásgarði og Vélhjólíþróttaklúbbsins VÍK úr Reykjavík sem er stærsta akstursíþróttafélag landsins. Ferðaþjónustuaðilar á Klaustri fagna þeim mikla fjölda sem keppir og kemur til að fylgjast með keppninni og þetta ágætis upphaf á sumarvertíðinni. Áætlað er að vel á annað þúsund manns sæki Klaustur heim um helgina.