Skemmtikeppni

Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem hafa verið að svipast um eftir hjólinu mínu eftir að því var stolið 1. júní. Sérstaklega vil ég þakka stjórn VÍK fyrir að bjóða upp á tilvonandi keppni sem á að styrkja mig til að laga hjólið ef það finnst eða til að kaupa annað.

Það hafa verið erfiðir dagar síðan hjólið hvarf, en það sem ekki drepur mann herðir mann í staðin. Allir hafa verið velviljaðir í minn garð og til í að hjálpa mér og vil þakka öllum sem hafa hjálpað á einn eða annan hátt við þessa miklu leit af hjólinu.

Það eru ekki margir sem vita það að þetta hjól er jafn gamalt og Íslandsmeistaramótið í Enduro og allar brautirnar í íslandsmótunum frá 1998-2004 voru lagðar á þessu hjóli fyrir utan Snæfellsneskeppninrar tvær. Hjólið var keyrt 35-37,000 km, eða um 1000 tíma og allt var orginal í mótornum (meira að segja kúplingin), en skipt var um “rokkerarmana og knastásinn” í 10.800 km eða eftir um 400 tíma sumarið 2000, en síðan þá hefur ekki verið hreyft við skrúfu í mótornum fyrir utan olíutappann. Það er ekkert nýtt hjól sem kemur í staðinn fyrir þetta og vil ég bara gamla upplitaða Husky, en ég er farin að vera vonlítill með hverjum deginum sem líður. Það má því með sanni segja að mikilli sögu hafi verið stolið af sögu íslensks enduro.

Fyrir aðra en mig er þetta lán í óláni mínu að mótorhjólinu var stolið, en þegar menn eins og ég lenda í svona óláni meta menn það við mig hvað ég hef gefið sportinu mikið af sjálfum mér og tíma mínum og er ég að uppskera samkvæmt sáðningu. Þetta ætti að sýna mönnum að þeir sem vinna vel fyrir heildina fá það borgað þegar þeir virkilega þurfa þess.

Varðandi fyrirhugaða keppni sunnudaginn 11. júlí þá er ég byrjaður að reyna að smala saman þeim mannskap sem var að vinna við keppnishaldið á árunum 1998-2000. Það er líka mín einlæg ósk og von að sjá sem flesta af keppendum sem tóku þátt í íslandsmótinu þessi fyrstu 3-5 ár sem mörkuðu fyrstu sporin í endurosögu Íslands og ekki þætti mér leiðinlegt að sjá keppendur mæta í keppnisbolum frá íslandsmeistaramótinu í enduro 1998.

Ég er byrjaður að leggja drög af handriti af þessari keppni og læt ég hér fylgja nokkur orð sem gætu kallast : Stikkorð án útskýringa. Skemmtikeppni, mörg sæti fá verðlaun og stakir keppendur, hlaupastart (ný tegund), 3 tíma keppni, 2 í liði, liðsfélagar dragast saman á keppnisstað (a-b), fjórhjól?, ný tegund af víti og hugmyndir sem of snemmt er að nefna.

Hjörtur L. Jónsson (Hjörtur Líklegur).

4 hugrenningar um “Skemmtikeppni”

  1. Þetta hljómar vel hjá „Líklegum“ . Ef þessi keppni verður í anda þeirra keppna sem haldnar voru fyrir ca. 8-10 árum þá lýst mér vel á málið. Ég tók þátt í keppni fyrir nokkrum árum þar sem liðsfélagar voru dregnir saman . Sú keppni var mjög skemmtileg en hún fór fram þar sem nú er Korputorg.

Skildu eftir svar