Frá og með deginum í dag eru lénin supermoto.is og trial.is orðin hluti af þessu vefsvæði þar sem motocross.is, enduro.is og motomos.is eru fyrir. Supermoto og trial eru ung afbrigði af vélhjólaíþróttinni á Íslandi en ekki vantar áhugan þó aðstæðan mætti batna. Til dæmis hefur ekki enn verið keppt í þessum greinum í Íslandsmóti en vonandi styttist í það.
Með þessu verður boðið uppá enn fjölbreyttari fréttir af því sem menn eru spenntastir fyrir og eru áhugasamir hvattir til að senda inn myndir eða greinar eða jafnvel ábendingar um fréttir, slúður og viðburði. Þeir sem eru öflugastir geta fengið lykilorð til að skrifa beint inn fréttir á vefinn.
Íslandsvinurinn Steve Colley, fyrrum heimsmeistari í trial, prýðir fyrstu forsíðu trial.is. Má segja að hann hafi fært íslenskt trial upp um nokkur þrep árið 2006 þegar hann kom hingað til lands og hélt trial-námskeið þar sem helstu trial ökumenn landsins komust að því að þeir væru blautir á bak við eyrun. Myndin er tekin á námskeiðinu þar sem Colley sýnir listir sínar með Esjuna í baksýn. Forsíða supermoto.is er prýdd mynd sem Unnar M. Magnússon tók á Akstursíþróttasvæðinu í Kapelluhrauni en einmitt um þessar mundir standa yfir fyrstu námskeiðin í supermoto með erlendum þjálfara.
Vefsvæðið motocross.is er um það bil það 70. vinsælasta á landinu þar sem að jafnaði um 2000 manns skoða það í hverri viku. Nú hafa um 4.000 færslur verið færðar á vefinn síðan 2001 þegar vistun á færslum byrjaði. Meginþorri færslna frá árunum 2001 til 2004 eru enn á „gamla“ forminu og stendur yfir vinna að setja þær á vefinn (hægt og rólega).
eru menn eitthvað á supermoto í brautinni hafnarfirðinum?
það er keyrt supermoto á brautini á þrijud og fimtud kl 19:00