„Maðurinn“ farinn til KTM

"The Man" á Súkkunni

Netheimar hafa logið undanfarna daga eftir að tilkynnt var að Roger DeCoster væri að hætta hjá Suzuki. DeCoster er þekktur undir viðurnefninu „The Man“ enda er hann, og hefur verið síðustu áratugina, án mikils vafa áhrifamesti einstaklingurinn í bransanum í kringum motocross og supercross í heiminum. KTM batt svo enda á sögusagnirnar í gær þegar staðfest var að hann hefði skrifað undir hjá þeim.

Roger DeCoster er fæddur í Belgíu árið 1944. Hann keypti sér sitt fyrsta keppnishjól 17 ára gamall og hélt því leyndu frá foreldrum sínum. Dag einn las faðir hans grein í dagblaði um að Roger hafi unnið motocrosskeppni. Kallinn tók fréttunum vel og studdi hann til að halda áfram keppni. 19 ára vann hann belgíska 500cc unglingatitilinn og var valinn í landsliðið í ISDE keppnina sem belgíska liðið vann.

Uppstilling

Roger DeCoster vann 36 keppnir á ferlinum í 500cc flokknum og varð fimm sinnum heimsmeistari.  Alla titlana vann hann á Suzuki hjóli en síðasta árið sem hann keppti í heimsmeistarakeppninni keppti hann á Honda. Má segja að hann hafi hætt á toppnum því hann vann lokaumferðina í heimsmeistarakeppninni árið 1980, á sínu síðasta ári. Þegar keppnisferlinum lauk hafði hann einnig unnið Motocross of Nations 6 sinnum.

Eftir keppnisferilinn tók hann við framkvæmdastjórastöðunni hjá Honda Racing í Bandaríkjunum og náði gríðargóðum árangri. Titlarnir hreinlega streymdu í hús. Ricky Johnson, David Baily, Jean-Michel Bayle, Jeremy McGrath eru á meðal þeirra ökumanna sem unnu titla með DeCoster. Hann hjálpaði einnig mikið til við hönnun hjólanna og segir sagan að hann hafi átt stóran þátt í velgengni Honda á þessum tíma.

Mynd: Þór Kjartans
DeCoster tekur á móti dollunni á MXoN 2007

Árið 1996 flutti DeCoster sig yfir til Suzuki sem hann hafði unnið með í mörg ár á sínum keppnisferli. Þar vann hann einnig marga titla með ökumenn eins og Ricky Carmichael, Travis Pastrana og nú síðast Ryan Dungey, sem er sá fyrsti sem vinnur bæði supercross og motocross titilinn á sínu fyrsta ári.

Frá því að DeCoster flutti til Bandaríkjana árið 1981 hefur hann verið liðstjóri Bandaríska liðsins á Motocross of Nations. Undir hans stjórn hefur liðið unnið keppnina 20 sinnum og þar af 13 sinnum í röð frá fyrsta sigrinum árið 1981.

DeCoster sagði í viðtali um helgina að hann hafi óskað eftir 3 ára framlengingu á samningi sínum en Suzuki hafi aðeins viljað bjóða honum 1 ár. Sagði hann að Suzuki í Japan hafi ekki viljað binda sig til langs tíma vegna óvissu í efnahagsmálum. Sjálfur sagðist hann hafa tapað miklu á fjárfestingum í fasteignum í Bandaríkjunum og gæti því ekki farið á eftirlaun eftir aðeins eitt ár.

Á næstu dögum verður spennandi að fylgjast með hvaða ökumenn DeCoster fær til liðs við sig fyrir komandi tímabil. Margir eru nefndir til sögunnar bæði frá Evrópu og einnig innan Bandaríkjanna t.d. Marvin Musquin, Ken Roczen. Einn af þeim sem eru nú með samning við KTM er Mike Alessi sem DeCoster rak frá Suzuki fyrir nokkrum árum.

Síðasti titill KTM í Bandaríkjunum var 250cc titillinn sem Grant Langston nældi sér í.

Stíllinn hjá DeCoster þótti einstaklega mjúkur

2 hugrenningar um “„Maðurinn“ farinn til KTM”

  1. Já, þetta verður spennandi að sjá. Ef einhver ætti að geta náð þeim á toppinn er það hann (jú og Everts)

Skildu eftir svar