Fyrir nokkru kviknaði sú hugmynd að koma járnkari upp að rústunum af Dverghamraskála. Á laugardag fóru Hjörtur Líklegur og Garðar upp að skálanum með járnkar á sexhjóli. Stormur hafði lánað sexhjól til verksins og Hringrás járnkarið til að nota sem brennustæði. Það tók fjóra tíma að komast upp með járnkarið því að það þurfti að gera slóð fyrir sexhjólið og það varð að gera með skóflu og haka og tók sinn tíma. Eftir að járnkarið var komið upp hefur logað eldur í karinu á laugardag í um þrjá tíma og í gær frá 11.00 til 20.00. Það hafa verið nokkrir félagar í Slóðavinum sem hafa verið að bæta á eldinn og er stefnt á að vera búnir að brenna allt brennanlegt drasl þarna fyrir næstu helgi, en þá er stefnt á að Reynir hjá Þyrluþjónustunni komi á þyrlu og taki karið niður með draslinu sem ekki getur brunnið. Það væri ekki óvinsælt að ef einhverjir sem eru á ferðinni þarna og sjá að það er logandi eldur í járnkarinu að bæta á eldinn og jafn vel kveikja upp eld í karinu.
Frábært framtak hjá Hirti og Garðari og öllum öðrum sem komu að þessu! Skálastæðið var orðið mjög sóðalegt og draslið byrjað að fjúka um allt svæði.