Þriði dagurinn á ISDE

Þriðji dagurinn kominn að kvöldi og við búin að vera á fullu í allan dag. Eftir orkuhleðslu á sveitasetrinu var haldið niðrá bryggju í pittinn að græja og gera enn einu sinni í glampandi sól og blíðu. Næst var haldið af stað sem leið lá að fyrsta „special test-inu“, þar skelltum við okkur í skoðunarferð um hringinn sem var mjög flottur með einum góðum grjótakafla. Þegar allir voru komnir héldum við að næsta „service“ svæði en þar hittum við Ástralska konu og duttum á svakalegt spjall við hana og fengum allskyns upplýsingar fyrir keppnina. Það voru allir mjög fegnir eftir það enda margar spurningar sem lágu í loftinu varðandi allt þetta „system“.

Við fikruðum okkur svo koll af kolli á milli sérleiða og viðgerðasvæða fyrir fyrstu tvo dagana en þeir eru keyrðir alveg eins. Sérleiðirnar voru yfirleitt inní skógi og við sáum nú ekkert sem við þurfum að setja fyrir okkur. En leiðirnar voru samt mjög flottar og á þeirri síðustu sem við skoðuðum var hluti af brautinni eftir go-kart braut og svo annar hluti í motocross braut. Á einni leiðinni hitti ég Ítalska feðga sem voru að fara að keppa, strákurinn í Junior flokki og pabbinn í Club flokki. Þeir sögðu að keppnin í fyrra í Mexico hefði verið allt öðruvísi, þá hefðu sérleiðirnar verið það auðvelda í keppninni og ferjuleiðirnar voru erfiðar. En núna í Finnlandi hefðu þeir reynt að hafa sérleiðirnar erfiðari þar sem ferjuleiðirnar eru auðveldari.

Þegar við höfðum skoðað alla staðina fyrir dag 1 og 2 héldum við heim á sveitasetrið þar sem allir skoluðu af sér skítinn og dressuðu sig upp fyrir opnunarhátíð keppninnar sem var haldin í svaka leikvangi með tjaldi yfir en þar er einmitt einn „service“ staðurinn í keppninni. Við vorum mætt alltof snemma og biðum þar til skrúðganga hófst niður í leikvanginn. Þetta var alveg eins og á Andrés Andarleikunum, við með Iceland skilti og meira að segja þema lagið úr Rocky spilað undir ! Allir voru svo leiddir yfir sviðið þar sem löndin voru hvert á fætur öðru kynnt til leiks. Síðan fór fram svakaleg opnunarathöfn með allskyns atriðum en flottastur var þó 11 ára trial snillingur sem prjónaði um allt svæðið og tók vegasalt og vörubretti í nefið. Eftir athöfnina voru svo tónleikar sem við héldum að yrðu svaka rokkaði miðað við byrjunina en svo byrjuðu 3 gaurar að syngja lag með Beyonce og allt í rugli. Við ætluðum þá að fá okkur að éta en enduðum öll í pylsuvagni rétt hjá. Áður en við fórum heim kíktum við aftur á tónleikana í smá stund en þá var komin talvert betri tónlist.

Núna eru allir dottnir í kojur og planið fyrir morgundaginn er að skoða þær þrjár sérleiðir sem við eigum eftir og græja svo ýmislegt fyrir fyrsta keppnisdaginn.

Allir að kíkja á facebook síðuna svo (facebook.com/isde2011teamiceland) !

Kv. Jonni


Skildu eftir svar