Unnið var að fullum krafti á Klaustri um helgina. Stjórnarmenn úr VÍK ásamt nokkrum sem vettlingi geta valdið mættu á svæðið. Brautin og umhverfi hennar var betrumbætt á ýmsa vegu en til dæmis var smíðuð brú svo áhorfendur geti fært sig betur um áhorfendasvæðin. Eitthvað þurfti nú að æfa sig í brautinni og erfitt var að ná brosinu af fólki eftir það.
Ennþá er hægt að skrá sig í keppnina og er skráningin opin fram til 1.maí hér.
Hér eru nokkrar myndir frá helginni.
Myndir: Óli Gísla og Guðbjartur
Mig langar að spyrja forsvarsmenn VÍK nokkurra spurninga !
Hvernig stendur á því að VÍK talar sí og æ um að fáir vinni óeigingjarna sjálfboðavinnu í þágu sportsins þegar vinnuhelgar og dagar eins og þessi eru hvergi auglýstir og almennum félagsmanni þar með nær ómögulegt að leggja hönd á plóg þótt glaður vildi.
„Stjórnarmenn úr VÍK ásamt nokkrum sem vettlingi geta valdið mættu á svæðið“
Ef skoðaðar eru myndir á netinu hér og þessum vef frá þessari helgi má sjá þann flota sem saman var kominn á klaustri „til að valda vetlingi“ en aðeins þrír menn á öllum þessum myndum eru klæddir til þess að sinna vinnu ! Restin er í full race gear….
„Eitthvað þurfti nú að æfa sig í brautinni og erfitt var að ná brosinu af fólki eftir það“
Hvenar fá hinir almennu keppendur og félagsmenn að æfa sig í brautinni ?
Hversvegna er almúginn ekki látinn vita að það eigi að „vinna“/“hjóla“ í brautinni ?
Er það bara svartasta mafían sem fær að vera með ?
Sæll UMM og takk fyrir spurninguna. Svarið er einfaldlega það að verkefnin voru tiltölulega afmörkuð um helgina og ekki hægt að vera með of stóran hóp til að vinna þau. Oft verður nefnilega minna úr verki og erfiðara að stjórna vinnunni þegar allt of margir eru á staðnum.
Brautin var færð frá Skaftánni og menn fóru um brautina á hjólum um helgina til að skoða, laga stikur, breyta eftir þörfum. Það gera menn best í hjólagallanum. Allir sem komu með voru þarna til að vinna hvernig sem þeir voru klæddir. Við tókum svo reyndar allir tvo hringi eftir að við hættum að smíða/vinna til að sjá hvort þyrfti að breyta/laga á fleiri stöðum. Almennur „vinnudagur“ var hins vegar algerlega óþarfur.
En það er frábært að heyra að það sé áhugi á að hjálpa til – við höldum reglulega vinnudaga í Bolaöldu og þeir sem hjálpa hjóla frítt á eftir. Þá er allar hendur vel þegnar.
Kveðja, Hrafnkell Sigtryggsson formaður VÍK