MotoMos vill árétta að allur akstur fyrir utan svæði MotoMos sem er ekki á viðurkenndum vegum eða slóðum er stranglega bannaður. Upp á síðkastið hafa borist miklar kvartanir hjá nágrönnum okkar og hafa einstaklingar verið að hjóla norðanmegin við brautina (nær Esjunni) öllum stundum og fyrir stuttu var umferð ökutækja á þessu svæði til rúmlega miðnættis. Fyrir vikið er formleg kvörtun komin í gang í kerfið hjá bænum sem getur haft áhrif á starfsleyfi brautarinnar og sett framtíð hennar í hættu. MotoMos er búið að eyða miklu púðri í svæðið og nemur fjárfestingin tugum milljóna síðustu árin og væri það einstaklega súrt í broti ef þeirri fjárfestingu yrði sópuð til hliðar með lokun brautarinnar einfaldlega þar sem nokkrir óforskammaðir aðilar virða hvorki lög né reglur og láta almenna skynsemi víkja til hliðar fyrir stundar gamani. Þó ekki sé hægt að ætlast til að MotoMos beri ábyrgð á ökumönnum utan svæðisins, þá beinast allar kvartanir að þeirri starfsemi sem félagið stendur fyrir á svæðinu.
Jafnframt vill MotoMos taka fram að sá enduroslóði sem verið hefur í notkun upp á síðkastið er nú lokaður af þessum sökum og geta þeir sem umferðinni og kvörtuninni hafa valdið klappað sér á bakið fyrir þann árangur. M.ö.o. stranglega bannað er að hjóla enduroslóðann og eiga ökumenn eingöngu að nýta sér þá brautaraðstöðu sem er fyrir hendi. MotoMos mun reyna að byggja upp á svæðinu í sumar aðstöðu fyrir endurocross í staðinn og er allur efnisviður í slíka framkvæmd vel þegin. Í lokin áréttar MotoMos opnunartímann í sumar en hann er eftirfarandi:
Mánudagar – frá kl.17-21
Þriðjudagar – frá kl.17-21
Miðvikudagar – frá kl.17-21
Laugardagar – frá kl.13-18
Sunnudagar – frá kl.13-18
Miðar fæst í N1 í Mosfellsbæ og hægt er að kaupa árskort með að senda póst á motomos@internet.is. Virðum opnunartíma og sýnum nágrönnum okkar ákveðna tillitsemi.